Íþróttir: Þróttur í undanúrslit eftir oddahrinu

Þróttur Neskaupstað er komið í undanúrslit Íslandsmóts kvenna í blaki eftir sigur á Álftanesi á útivelli í gær í oddahrinu. Tvisvar þurfti upphækkanir til að ná fram úrslitum í hrinum.

Fyrstu hrinuna vann Álftanes 25-22 en Þróttur missti hana út úr höndum sér, eftir að hafa verið 11-17 yfir tókst heimaliðinu að minnka muninn í 15-17 og jafna í 18-18. Aðra hrinuna vann Þróttur svo nokkuð sannfærandi, 19-25.

Álftanes var yfir 16-10 í þriðju hrinu en Þróttur jafnaði í 23-23 og fékk tvisvar færi á að vinna hana í 23-24 og 26-27 áður en Álftanes kláraði hana loks 29-27. Þróttur svaraði með að vinna fjórðu hrinuna 21-25 og knýja fram oddahrinu.

Álftanes fór betur af stað, var yfir 7-3 en Þróttur jafnaði í 7-7 og tók síðan frumkvæðið. Liðið hafði tækifæri til að vinna hana í stöðuunni 12-14 en náði því loks 14-16.

Í undanúrslitum mætir Þróttur deildarmeisturum HK. Liði sem fyrr vinnur tvo leiki fer í úrslit. Fyrsti leikurinn verður í Kópavogi annað kvöld en næstu í Neskaupstað á laugardag. Oddaleikur verður í Kópavogi á þriðjudaginn í næstu viku ef þarf. Áhorfendur hafa nú verið leyfðir á blakleikjum.

Bikarkeppnin í knattspyrnu

Leiknir og Sindri eru komin í 32ja liða úrslit í bikarkeppni karla eftir leiki helgarinnar. Leiknir vann Hött/Huginn. Fyrsta markið skoraði Arek Grzelak úr víti á 33. mínútu en Izar Abella bætti við öðru á fyrstu mínútu seinni hálfleiks. Varamaðurinn Mykolas Krasnovskis skoraði þriðja markið á 71. mínútu.

Sindri vann Fjarðabyggð 0-2. Abdul Bangura kom Sindra yfir á 57. mínútu en Ibrahim Barrie innsiglaði sigurinn á 88. mínútu.

Í bikarkeppni kvenna vann Sindra Einherja 5-0. Guðrún Ása Aðalsteinsdóttir skoraði strax á fyrstu mínútu og þar með var tóninn sleginn því hún skoraði alls fjögur mörk í leiknum. Samira Suleman skoraði einnig mark á síðustu mínútu fyrri hálfleiks en hálfleiksstaðan var 2-0. Sindri mætir Fjarðabyggð/Hetti/Huginn í næstu umferð eftir tvær vikur.

Úrvalsdeildin í körfu

Höttur leikur mikilvægan leik fallbaráttu úrvalsdeildar karla í körfuknattleik í kvöld þegar Þór Þorlákshöfn kemur í heimsókn. Leikurinn hefst klukkan 19:15.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar