Íþróttir: Þróttur lagði KA

Karlalið Þróttar í úrvalsdeildinni í blaki komst aftur á sigurbraut eftir þrjá tapleiki með að vinna KA 3-0 í Neskaupstað á miðvikudagskvöld. Höttur tapaði fyrir Hauknum 93-85 í úrvalsdeild karla í körfuknattleik í gærkvöldi en liðin léku í Hafnarfirði.

KA var yfir 6-7 í fyrstu hrinu en Þróttur skoraði þá þrjú stig í röð. Munurinn var lítill til loka en KA jafnaði aldrei og Þróttur vann 25-22. Önnur hrinan var jöfn. KA var komið í ágæta stöðu, 13-17 en Þróttur jafnaði í 17-17, komst yfir 19-18 og vann 25-21. Undir lok hennar fékk einn leikmanna KA brottvísun út hrinuna vegna mótmæla við dómi.

Í þriðju hrinunni náði Þróttur snemma góðri forustu, 10-5. KA saxaði jafnt og þétt á hana og náði að jafna í 18-18. Þróttur reyndist sterkari á lokasprettinum og vann 25-22.

Stigahæstur hjá Þrótti Fjarðabyggð var Raul Garcia Asensio með 18 stig og Andri Snær Sigurjónsson bætti við 12. Liðið er í 6. sæti með 12 stig eftir 10 leiki. Bæði karla og kvennalið Þróttar spila gegn HK í Kópavogi á morgun.

Tókst aldrei að halda forskotinu


Höttur hitti ekki á góðan leik gegn Haukum í gærkvöldi. Segja má að allir leikhlutar hafi þróast svipað. Haukar hafi verið með forustu, Höttur gert áhlaup og jafnað eða komist aðeins yfir áður en Haukar náðu aftur forustunni.

Haukar skoruðu fyrstu sjö stigin í leiknum og þótt Höttur kæmist stuttlega yfir þá kláraði heimaliðið fyrsta fjórðung 20-16. Slæmur seinni hluti annars leikhluta varð til þess að Haukar voru 50-39 yfir í hálfleik.

Í stöðunni 54-53 í þriðja leikhluta átti Höttur möguleika á að komast yfir. Þá tók við slæmur kafli í sókninni og Haukar náðu forskoti á ný. Þeir voru samt ekki nema 65-62 yfir eftir leikhlutann. Obie Trotter byrjaði fjórða leikhluta á tveimur þriggja stiga körfum og Höttur var kominn yfir. En því tókst ekki að fylgja eftir, Haukar spiluðu fína vörn og unnu 93-85.

Deontaye Buskey var stigahæstur með 23 stig en Obie Trotter skoraði 19. Höttur er í 5. – 8. Sæti með 10 stig úr 9 leikjum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.