Íþróttir: Þróttur mætir KA í úrslitakeppninni

Um helgina skýrðist endanlega hvernig úrslitakeppni Íslandsmóts kvenna í blaki verður háttað hjá Þrótti Neskaupstað. Karlalið Hattar bíður hins vegar enn þess að vita mótherja sinn í úrslitum fyrstu deildarinnar í körfuknattleik. Bikarkeppni karla í knattspyrnu hófst um helgina.

Í byrjun mánaðarins varð ljóst að Þróttur kæmist í úrslitakeppnina en óljósara var hvort liðið yrði í þriðja eða fjórða sæti. Það réðist í síðustu viku þegar Álftanes vann nokkuð óvæntan útisigur á Afturelding og ýtti Þrótti úr þriðja sætinu.

Tveimur stigum munaði á liðunum að lokum, Þróttur varð í fjórða sæti með 28 stig en Álftanes var með tveimur stigum meira.

Þetta þýðir að Þróttur mætir KA í undanúrslitum Íslandsmótsins. Fyrsti leikurinn verður á Akureyri á fimmtudagskvöld en síðan mætast liðin ekki aftur fyrr en þriðjudaginn í næstu viku í Neskaupstað. Oddaleikurinn verður tveimur dögum síðar á Akureyri, ef þarf, því það lið sem fyrr vinnur tvo leiki kemst í úrslit. Í hinum undanúrslitunum mætast Álftanes og Afturelding.

Höttur komst á fimmtudag í úrslitaeinvígi fyrstu deildar karla í körfuknattleik. Óljóst er hvort liðið mætir þar Sindra eða Álftanesi en síðarnefnda liðið knúði fram oddaleik með 20 stiga sigri á heimavelli í gær. Sá verður á Höfn á miðvikudag.

Fyrsta umferð Mjólkurbikarkeppni karla í knattspyrnu var leikin um helgina. Einherji lagði Boltafélag Norðfjarðar á útivelli 0-2. Ruben Riesco skoraði fyrra markið á 84. mínútu og Georgi Koaraneychev það seinna á 90. mínútu. Sindri vann Spyrnu 6-0 á Höfn á laugardag.

Í annarri umferð tekur Höttur/Huginn á móti Einherja fimmtudaginn 21. apríl. Tveimur dögum síðar tekur Sindri á móti Knattspyrnufélagi Austfjarða.

Mynd: Sigga Þrúða


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar