Jafntefli í Austfjarðaslag: Þjálfararnir sáttir við stigið - Myndir
Leiknir komst upp fyrir Hött í botnbaráttu annarrar deildar karla í knattspyrnu með 1-1 jafntefli gegn Fjarðabyggð á föstudagskvöld. Bæði lið fengu tækifæri til að landa sigrinum í lokin en virtust sátt við skiptan hlut.Fjarðabyggð komst yfir strax á 11. mínútu með marki Nikola Kristins Stojanovic. Fjarðabyggð hafði tök á fyrri hálfleiknum og kom fyrsta alvöru sókn Leiknis ekki fyrr en í lok hans.
Leiknir átti hins vegar fyrsta kortérið í seinni hálfleik, leikmenn liðsins pressuðu framarlega og fengu nokkrar álitlegar sóknir. Það var því verðskuldað að Dagur Ingi Valsson skyldi skora jöfnunarmarkið með langskoti á 60. mínútu.
Eftir markið vaknaði Fjarðabyggð aftur til lífsins. Bæði lið fengu færi til að skora sigurmarkið, Fjarðabyggð þó sennilega sínu hættulegri í blálokin.
Ekkert lið heldur sama hraða í 90 mínútur
„Við áttum að gera betur, sérstaklega í seinni hálfleik. Við vorum mjög góðir í fyrri hálfleik og strákarnir gerðu allt sem við ræddum um inni í klefanum fyrir leik.
Í seinni hálfleik duttum við of mikið niður en Leiknir er líka með mjög gott lið sem kom sterkt inn. Það var því kannski ekki skrýtið að við gæfum eftir þótt ég hefði viljað sjá okkur spila seinni hálfleikinn eins og þann fyrir. Svona er fótboltinn, það er ekkert lið sem heldur sama hraða í 90 mínútur. Eitt sig í kvöld móti mjög góðu liði er fínt,“ sagði Dragan Stojanovic, þjálfari Fjarðabyggðar eftir leikinn.
Hann var gagnrýninn á aðstæður í Fjarðabyggðarhöllinni. „Það var svakalega erfitt að spila inni í kvöld, alltof heitt. Ef það á að vökva völlinn þá verður að vökva hann allan, ekki bara 40% hans. Ég skil ekki svona.“
Frestur til að ganga frá félagaskiptum leikmanna fyrir lokaátökin rennur út á morgun. Fjarðabyggð hefur fengið til sín Kristján Frey Óðinsson frá Magna í stað Marinó Snæs Birgisson sem er farinn heim. Þá er Aron Sigurvinsson farinn í Huginn.
„Kristján er flottur strákur sem mun geta leyst nokkrar stöður á vellinum. Við höfum misst þrjá leikmenn úr hópnum hjá okkur þannig hann var orðinn frekar þunnur. Við fáum mögulega einn leikmann í viðbót.“
Fjarðabyggð er í sjöunda sæti deildarinnar, bestu stöðu austfirsku liðanna og þarf nokkuð að gerast til að liðið sogist niður í fallbaráttuna sem hin eru í. „Við erum með flott lið, nokkra eldri stráka aðra yngri. Við viljum vera fyrir ofan miðju en við byggjum á þessu.“
Virðum stigið
Leiknir hafði sætaskipti við Hött en Egilsstaðaliðið tapaði 0-5 fyrir Vestra á laugardag. Þau berjast við Víði Garði, Huginn og Tindastól um að forðast fallið. Fáskrúðsfjarðarliðið hefði því þurft fleiri en eitt stig úr nágrannaslagnum.
„Við verðum að virða stigið. Við töpuðum síðustu tveimur svo þetta er betra en það. Áður vorum við á réttri leið svo ég vona að við förum aftur upp núna. Við ætluðum ekki að vera í fallbaráttu en það er reyndin. Nú er markmið okkar að koma okkur upp úr þessum pakka í fallbaráttunni og tryggja sætið sem fyrst,“ sagði Viðar Jónsson, þjálfari Leiknis.
„Við vorum ekki nógu hvassir í byrjun, ekki tilbúnir í leikinn. Í hálfleik varð breyting, ég færði til innan liðsins og stappaði stálinu í strákana þannig þeir komu sprækir út í seinni hálfleik.
Eftir að við skoruðum markið dró aðeins af okkur, Fjarðabyggð varð grimmari fram á við meðan við hörfuðum ósjálfrátt. Í lokin hefði þetta getað dottið hvoru megin svo var þannig ætli þetta hafi ekki verið sanngjarnt.“
Nokkrar breytingar hafa orðið á Leiknisleiðinu í félagaskiptaglugganum. Ingvi Ingólfsson fór aftur heim í Sindra og Coco til Spánar. Í stað þeirra komi Mykolas Krasnovskis frá Snæfelli en bróðir hans, Povilas, spilar með Leikni en sóknarmaðurinn Manu kemur frá Spáni. Þá voru í morgun staðfest félagaskipti Jesus Suarez, sem verið hefur lykilmaður á miðju Leiknis síðustu tvö sumur, til ÍR. „Ég býst við að það fari kannski einn og annar kominn. Við erum ekki að bæta við hópinn,“ sagði Viðar á föstudag.