Jafntefli í fyrri undanúrslitaleiknum
Lið Fjarðabyggðar/Hattar/Leiknis gerði 1-1 jafntefli við Fram í fyrri leik liðanna í undanúrslitum annarrar deildar kvenna um helgina. Höttur/Huginn steig skref í átt að annarri deild karla á næstu leiktíð en fátt virðist bjarga Fjarðabyggð frá að falla í staðinn.Kvennaliðin léku í Reykjavík í gær. Bayleigh Ann Chaviers kom Austfjarðaliðinu yfir á 22. mínútu en heimastelpur jöfnuðu fimm mínútum síðar. Liðin mætast aftur í Fjarðabyggðarhöllinni næsta laugardag. Það lið sem kemur betur út úr leikjunum tveimur fer upp um deild.
Í annarri deild karla versnaði staða Fjarðabyggðar á ný eftir tvo sigurleiki þegar liðið tapaði 6-1 fyrir Haukum í Hafnarfirði. Staðan var 3-0 í hálfleik en Vice Kendes skoraði mark Fjarðabyggðar á 48. mínútu.
Í sömu deild tók Leiknir á móti Magna á föstudagskvöld. Gestirnir skoruðu eina mark leiksins á 42. mínútu eftir slaka dekkun heimamanna. Leiknisliðið var heldur meira með boltann í leiknum og átti nokkuð af góðum marktækifærum en brást bogalistin upp við markið.
Eftir leiki helgarinnar er Fjarðabyggð í næst neðsta sæti með 11 stig en Leiknir í því næsta fyrir ofan sjö stigum á undan. Þrjár umferðir eru eftir sem gefa liðunum í mesta lagi níu stig þannig fátt virðist geta bjargað Fjarðabyggð frá falli.
Höttur/Huginn stefnir upp í staðinn en liðið batt í gær enda á þriggja leikja taphrinu með 1-4 sigri á Augnabliki. Höttur spilaði afar vel og skoraði strax á 7. mínútu. Það gerði Manuel Garcia. Ignacio Poveda bætti við öðru þremur mínútum síðar áður en Manuel skoraði aftur á síðustu mínútu fyrri hálfleiks. Hann skoraði sitt þriðja mark á 68. mínútu en tveimur mínútum síðar skoruðu heimamenn sitt eina mark.
Höttur/Huginn er í efsta sæti deildarinnar með 38 stig, fimm stigum meira en Sindri sem einnig hefur leikið 19 leiki. Ægir er í þriðja sæti með 32 stig en á tvo leiki til góða. Leiknar eru 22 umferðir í deildinni.
Ægir tók á móti Einherja og hafði 4-2 sigur þótt Vopnfirðingar væru yfir þegar 20 mínútur voru eftir. Þorlákshafnarliðið komst yfir strax á fimmtu mínútu en Alejandro Barca jafnaði á síðustu mínútu fyrri hálfleiks. Ismael Moussa kom Einherja yfir á 70. mínútu en Ægismenn jöfnuðu úr víti tveimur mínútum síðar og komust yfir þremur mínútum eftir það. Fjórða markið kom svo fjórum mínútum fyrir leikslok.
Einherji er í mikilli fallbaráttu, næst neðsta sæti með 16 stig eftir 19 leiki en þar fyrir ofan er ÍH með 17 stig úr 18 leikjum.