Jafntefli í fyrri undanúrslitaleiknum

Lið Fjarðabyggðar/Hattar/Leiknis gerði 1-1 jafntefli við Fram í fyrri leik liðanna í undanúrslitum annarrar deildar kvenna um helgina. Höttur/Huginn steig skref í átt að annarri deild karla á næstu leiktíð en fátt virðist bjarga Fjarðabyggð frá að falla í staðinn.

Kvennaliðin léku í Reykjavík í gær. Bayleigh Ann Chaviers kom Austfjarðaliðinu yfir á 22. mínútu en heimastelpur jöfnuðu fimm mínútum síðar. Liðin mætast aftur í Fjarðabyggðarhöllinni næsta laugardag. Það lið sem kemur betur út úr leikjunum tveimur fer upp um deild.

Í annarri deild karla versnaði staða Fjarðabyggðar á ný eftir tvo sigurleiki þegar liðið tapaði 6-1 fyrir Haukum í Hafnarfirði. Staðan var 3-0 í hálfleik en Vice Kendes skoraði mark Fjarðabyggðar á 48. mínútu.

Í sömu deild tók Leiknir á móti Magna á föstudagskvöld. Gestirnir skoruðu eina mark leiksins á 42. mínútu eftir slaka dekkun heimamanna. Leiknisliðið var heldur meira með boltann í leiknum og átti nokkuð af góðum marktækifærum en brást bogalistin upp við markið.

Eftir leiki helgarinnar er Fjarðabyggð í næst neðsta sæti með 11 stig en Leiknir í því næsta fyrir ofan sjö stigum á undan. Þrjár umferðir eru eftir sem gefa liðunum í mesta lagi níu stig þannig fátt virðist geta bjargað Fjarðabyggð frá falli.

Höttur/Huginn stefnir upp í staðinn en liðið batt í gær enda á þriggja leikja taphrinu með 1-4 sigri á Augnabliki. Höttur spilaði afar vel og skoraði strax á 7. mínútu. Það gerði Manuel Garcia. Ignacio Poveda bætti við öðru þremur mínútum síðar áður en Manuel skoraði aftur á síðustu mínútu fyrri hálfleiks. Hann skoraði sitt þriðja mark á 68. mínútu en tveimur mínútum síðar skoruðu heimamenn sitt eina mark.

Höttur/Huginn er í efsta sæti deildarinnar með 38 stig, fimm stigum meira en Sindri sem einnig hefur leikið 19 leiki. Ægir er í þriðja sæti með 32 stig en á tvo leiki til góða. Leiknar eru 22 umferðir í deildinni.

Ægir tók á móti Einherja og hafði 4-2 sigur þótt Vopnfirðingar væru yfir þegar 20 mínútur voru eftir. Þorlákshafnarliðið komst yfir strax á fimmtu mínútu en Alejandro Barca jafnaði á síðustu mínútu fyrri hálfleiks. Ismael Moussa kom Einherja yfir á 70. mínútu en Ægismenn jöfnuðu úr víti tveimur mínútum síðar og komust yfir þremur mínútum eftir það. Fjórða markið kom svo fjórum mínútum fyrir leikslok.

Einherji er í mikilli fallbaráttu, næst neðsta sæti með 16 stig eftir 19 leiki en þar fyrir ofan er ÍH með 17 stig úr 18 leikjum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar