Jóhanna Lilja á palli á Skíðamóti Íslands

Jóhanna Lilja Jónsdóttir, úr Skíðafélaginu í Stafdal, komst á verðlaunapall í bæði svigi og stórsvigi á Skíðamóti Íslands sem haldið var á Dalvík um síðustu helgi.

Jóhanna Lilja varð í þriðja sæti í fullorðinsflokki á samanlögðum tíma upp á 1:24,49 60 mín. Jóhanna Lilja var í öðru sæti eftir fyrstu ferð, þar sem hún skíðaði á 43,44 og átti góða seinni ferð þar sem hún kom niður á 41,05 og átti einnig næst besta tímann.

Það dugði þó ekki því ólympíufarinn Hólmfríður Dóra Friðgeirsdóttir, sem var þriðja eftir fyrri ferðina, var tæpri sekúndu fljótari í þeirri seinni og sigraði. Á milli þeirra var Elín Elmarsdóttir van Pelt. Elín og Jóhanna voru einnig í tveimur efstu sætunum í flokki 16-17 ára.

Jóhanna Lilja varð einnig önnur á eftir Elínu í flokki 16-17 ára í stórsvigi. Munurinn samanlagt var þó mun meiri þar, tæpar fimm sekúndur en Jóhanna skíðaði á 2:05,52 80. Sá tími skilaði Jóhönnu Lilju í fimmta sætið í fullorðinsflokki.

Með árangri sínum fékk Jóhanna Lilja nógu mörg stig til að ná lágmarki inn í íslenska B-landsliðið á skíðum. Ekki er víst það dugi alla leið, aðeins ákveðinn fjöldi kemst inn og ræður lokastigafjöldi því.

Á sama tíma voru tugir austfirskra skíðaiðkenda á aldrinum 8-15 við keppni í Oddsskarði þar sem Fjarðarálsmótið var haldið. Eftir viku fer síðan þar fram Unglingameistaramót Íslands.

Jóhanna Lilja, lengst til hægri. Mynd: Skíðasamband Íslands


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar