Jón Orri Ólafsson nýr þjálfari Einherja
Í dag skrifaði knattspyrnuþjálfarinn Jón Orri Ólafsson undir samning hjá Einherja en samningurinn gildir út knattspyrnutímabilið í ár.Jón Orri er Vopnfirðingur og lék hann með Einherja tímabilin 2012 til 2014 en áður hafði hann leikið fjölmörg tímabil fyrir Fram í efstu deild.
Jón Orri hefur áður þjálfað Einherja en það var sumarið 2018 og lenti Einherji þá í sjötta sæti í 3. deild en aðeins fjórum stigum frá toppsætinu.
Þeir Símon Svavarsson og Ívar Örn Grétarsson, fyrrum leikmenn Einherja, verða Jóni til halds og traust í sumar.
Einherji er sem stendur í neðsta sæti 3. deildar með sjö stig eftir ellefu leiki og tekur Jón því við liðinu í erfiðri stöðu. „Stjórn Einherja er virkilega spennt fyrir ráðningunni sem og Jón Orri sjálfur. Hann hefur störf strax í dag og mun stýra liðinu gegn KFG í Garðabænum um næstu helgi,“ segir í fréttatilkynningu Einherja um ráðninguna.