Jóna Guðlaug sænskur bikarmeistari
Jóna Guðlaug Vigfúsdóttir, blakkona úr Neskaupstað, varð um síðustu helgi sænskur bikarmeistari í blaki með liði sínu Hylte/Halmstad.Jóna Guðlaug byrjaði inn á og skoraði 10 stig fyrir Hylte/Halmstad sem vann Engelholm 3-1 í úrslitum. Í Svíþjóð spila fjögur efstu liðin í deildinni um bikarinn á einni helgi.
Jóna Guðlaug segist afar ánægð með að hafa náð að vinna bikarinn en hún er á sínu þriðja tímabili með Hylte/Halmstad og því sjöunda í sænsku deildinni.
„Ég hef aldrei unnið þennan bikar áður, þrátt fyrir að hafa verið hér í dágóðan tíma. Því varð ég ofboðslega glöð að ná honum. Það er afar eftirsóknarvert að vinna hann og því er gleðin mikil hér á bæ,“ segir hún.
Engelholm vann fyrstu hrinuna áður en Hylte/Halmstad snéri leiknum sér í vil. „Leikurinn var dálítið upp og ofan. Við byrjuðum svolítið stressaðar en stjórnuðum leiknum eftir að við náum að slaka á.
Ég er ánægð með hvernig liðið brást við því þetta var fyrsta hrinan sem við töpuðum á árinu og því hefðum við auðveldlega getað orðið enn stressaðri. Í staðinn kom baráttan í okkur og við tókum leikinn í okkar hendur."