Jörgen stýrir Fjarðabyggð/Hetti/Leikni út sumarið
Jörgen Sveinn Þorvarðarson tekur við þjálfun kvennaliðs Fjarðabyggðar/Hattar/Leiknis út þessa leiktíð. Sara Atladóttir, þjálfari, fór fyrr í fæðingarorlof en ætlað var.
Jörgen er 29 ára gamall og að baki yfir 80 leiki með Hetti, Huginn og Spyrni á árunum 2003-2013. Þetta verður í fyrsta skipti sem hann þjálfar meistaraflokk.
Sara Atladóttir hefur stýrt liðinu í sumar en hún á að eiga sitt fyrsta barn á næstu vikum. Hún ætlaði sér að klára tímabilið en eftir læknisskoðun í síðustu viku varð ljóst að það gengi ekki eftir. Hennar síðasti leikur var því markalaust jafntefli gegn Einherja á föstudagskvöld.
Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir á þrjá leiki eftir af tímabilinu, þar af tvo á heimavelli og verður sá fyrri gegn Álftanesi á Norðfirði á sunnudag. Liðið er í sjöunda sæti deildarinnar með 15 stig úr 13 leikjum.