Karfa: Fyrsti leikurinn gegn Hamri í kvöld
Höttur hefur þátttöku sína í úrslitakeppni fyrstu deildar karla í körfuknattleik þegar liðið heimsækir Hamar í Hveragerði í kvöld. Fyrirliði liðsins segir það vel undirbúið en leikmenn þessu æfðu alla páskahátíðina.
„Við æfðum alla daga páskafrísins nema á föstudaginn langa. Við ákváðum að fara rólega í páskaeggin. Nema Benni (Benedikt Guðgeirsson Hjarðar), hann talaði um að hafa fengið „páskaeggja overload“ en það skiptir litlu máli þar sem hann er orkumeiri en allir í liðinu til samans!“ segir Andrés Kristleifsson sem er fyrirliði liðsins ásamt Benna.
Liðin hafa skipst á sigrum í vetur og unnið sinn útileikinn hvort. Hamar vann 73-88 á Egilsstöðum en Höttur hefndi sín rækilega með 66-106 rústi í Hveragerði í mars.
„Við erum allir vel stemmdir og klárir í leikinn. Við erum búnir að kortleggja Hamarsmenn og vitum allir okkar hlutverk í liðinu. Það eru allir heilir heilsu og við komum brjálaðir til leiks í kvöld.“
Það lið sem fyrr vinnur tvo leiki kemst í úrslit um laust sæti í úrvalsedild. Leikurinn hefst klukkan 19:15.