Karfa: Góður útisigur á Breiðabliki

breidablik-hottur-1deildkarla2012.jpg
Höttur er á góðri siglingu í fyrstu deild karla í körfuknattleik eftir 86-97 sigur á Breiðabliki í Kópavogi á föstudagskvöld. Leikurinn var hnífjafn en Hattarmenn voru öflugri á endasprettinum.

Hattarmenn voru 21-20 undir eftir fyrsta leikhlutann en voru komnir stigi yfir í hálfleik, 35-36. Þannig sveiflaðist leikurinn allan tímann, einu til þremur stigum munaði á liðunum sem skiptust á um að hafa forskotið. 

Blikar voru 68-64 yfir eftir þriðja fjórðung og bættu í hana í upphafi þess fjórða, náðu mest 78-70 forskoti eftir rúmlega tveggja mínútna leik. Höttur saxaði á forskotið og komst yfir, 84-85 þegar rétt rúmar þrjár mínútur voru eftir af leiknum.

Heimamenn virtust þá sprungnir á limminu. Þegar styttist í leiknum fóru þeir á brjóta á Hattarmönnum til að stytta sóknir þeirra en Hattarmenn sendu einfaldlega sín vítaskot niður. Hver Blikasóknin fór á sama tíma út um þúfur.

„Þeir spiluðu mikið svæðisvörn sem við áttum auðveldara með að brjóta þegar að leið á leikinn,“ sagði Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar, um frammistöðu liðsins. 

„Útlendingarnir voru frábærir eins og allir sem spiluðu, Andrés og Eysteinn spiluðu klassa varnarleik. Þetta var bara sterkur liðssigur og gott að skilja Blikana aðeins eftir fyrir neðan okkur.“

Frisco Sandidge átti stórleik í Hattarliðinu, skoraði 40 stig, tók 13 fráköst og fiskaði 11 villur á andstæðingana. Austin Bracey skoraði 33 stig, Viðar Örn Hafsteinsson 12, Eysteinn Bjarni Ævarsson 10 og Benedikt Þorvaldur Guðgeirsson Hjarðar, tvö stig.

Höttur er eftir leikinn í þriðja sæti deildarinnar með tíu stig eftir sex leiki. Stutt hlé er nú í deildinni en Höttur spilar næst á Egilsstöðum gegn Hamri fimmtudaginn 6. desember. 
 
Mynd: Karfan.is 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.