Karfa: Hamar marði sigur í lokin: Myndir
Tímabilinu er lokið hjá körfuknattleiksliði Hattar eftir 68-73 ósigur fyrir Hamri í seinni leik liðanna í undanúrslitum fyrstu deildar karla á Egilsstöðum í kvöld. Höttur hafði undirtökin framan en missti þau um miðjan síðasta leikhlutann.
Eins og sjá má á lokatölunum var lítið skorað í leiknum í kvöld. Liðin spiluðu skipulagðan sóknarleik þar sem stillt var upp í kerfi og boltinn látinn ganga í von um að finna leiðir í gegnum þéttar varnir andstæðinganna. Dómar leiksins leyfðu töluverða baráttu sem hjálpaði vörunum enn frekar.
Höttur skoraði fyrstu sex stigin í leiknum en Hamar var yfir eftir fyrsta leikhluta 15-16. Stærsta atvik leikhlutans var sennilega þegar Ragnar Nathanaelsson fékk óíþróttamannslega villu fyrir að hrinda Viðari Erni Hafsteinssyni.
Ragnar, sem er miðherji Hamars, stóð í ströngu undir körfunni í kvöld í baráttu við þá Frisco Sandidge og Benedikt Þorvald Guðgeirsson Hjarðar. Báðir eru feiknasterkir en hið minnsta höfðinu styttri en Ragnar og beittu líkamanum til að ýta honum frá körfunni. Það virtist fara í skapið á honum þegar hann ýtti Viðar á áttundi mínútu.
Höttur var með undirtökin í öðrum leikhluta en munurinn var nánast enginn. Hann varð til í lok leikhlutans og Höttur fór með 39-34 forskot inn í hálfleik.
Stemmingin og gæfan virtust með Hetti og um miðjan þriðja leikhluta náði liðið tíu stiga forskoti, 51-41. Hamar minnkaði það samt snöggt í 53-49. Höttur náði samt að auka muninn aftur upp í 59-53 fyrir lok leikhlutans.
Baráttan virtist samt vera farin að taka sinn toll. Þeir þreyttust og sóknarleikurinn varð hægari. Hamarsmenn höfðu náð að hvíla nokkra lykilmenn og vörnin hjá þeim small. Skyttur Hattar fengu þannig alls ekkert svæði til að athafna sig. Þriggja stiga skot Hamars héldu áfram að rata ofan í körfuna.
Eitt slíkt varð að vendipunkti leiksins. Eftir að Jerry Lewis Hollis kom Hamri yfir, 63-64, úr einu slíku varð misskilningur í Hattarliðinu til þess að boltinn var dæmdur af því í innkastinu. Viðar Örn, sem var á bekknum, missti stjórn á skapi sínu og dúndraði stól í vegginn. Dómararnir dæmdu tæknivillu á bekkinn.
Það þýddi tvö vítaskot en Lárus Jónsson setti annað þeirra niður. Gestirnir héldu boltanum, skoruðu úr sókninni og fengu vít að auki sem þeir nýttu. Þar með var munurinn skyndilega orðinn fimm stig, 63-68.
Upp úr þeim dal náði Höttur sér aldrei. Hamarsmenn vissu það, stukku á fætur til að fagna hverju stigi, hverjum dóm. Síðasta vonin hvarf með þriggja stiga skoti Frisco í stöðunni 65-71 sem dreif ekki á körfuna og þriggja stiga karfa Austin Bracey úr næstu sókn á eftir kom of seint til að fá nokkru breytt.
HÖTTUR - HAMAR 68:73
Gangur leiksins: 6:3, 6:7, 7:9, 15:16, 17:18, 23:26, 32:32, 39:34, 44:36, 51:41, 53:49, 59:52, 59:56, 62:61, 63:69, 68:73.
HÖTTUR: Austin Magnus Bracey 20/7 fráköst, Eysteinn Bjarni Ævarsson 14/8 fráköst, Benedikt Þorvaldur Guðgeirsson Hjarðar 11/5 fráköst, Frisco Sandidge 11/15 fráköst/7 stoðsendingar, Andrés Kristleifsson 6/4 fráköst, Viðar Örn Hafsteinsson 2/4 fráköst, Sigmar Hákonarson 2, Frosti Sigur‘sson 2.
FRÁKÖST: 30 í vörn, 13 í sókn.
HAMAR: Jerry Lewis Hollis 22/11 fráköst, Oddur Ólafsson 12, Örn Sigurðarson 11, Ragnar Á. Nathanaelsson 9/6 fráköst/3 varin skot, Halldór Gunnar Jónsson 9, Þorsteinn Már Ragnarsson 7, Lárus Jónsson 3.
FRÁKÖST: 20 í vörn, 7 í sókn.
DÓMARAR: Georg Andersen, Steinar Orri Sigurdsson.