Karfa: Höttur skrefi nær úrslitakeppninni eftir sigur á Blikum - Myndir

karfa_hottur_breidablik_28022013.jpg
Höttur sigraði Breiðablik 85-83 í fyrstu deild karla í körfuknattleik á Egilsstöðum á fimmtudagskvöld. Leikurinn snérist í síðustu sókn Hattarmanna. Sigurinn færir Hött skrefi nær sæti í úrslitakeppninni.

Bæði lið spiluðu í Hattarbúningum þetta kvöld þar sem Blikar gleymdu búningatöskunni heima í Kópavogi. Þeir fengu því lánaða svarta Hattarbúninga en heimamenn voru hvítklæddir að vanda.

Hattarmenn voru feti framar nær allan leikinn gegn gekk illa að hrista gestina úr Kópavoginum af sér. Staðan eftir fyrsta fjórðung var 24-20 og í hálfleik var hún 43-42. Frisco Sandidge skoraði síðustu körfuna úr skyndisókn sem Sigmar Hákonarson kom af stað þegar hann hirti varnarfrákast í baráttu við mann sem var að minnsta kosti höfðinu hærri.

Eftir þriðja leikhluta var staðan 64-59. Þannig var forusta Hattar, 2-5 stig. Þegar rúmar tvær mínútur voru eftir tókst Blikum hins vegar að komast yfir, 80-81. Hattarmenn komust í 82-81 en Blikar svöruðu í 81-82.
 
Frisco tryggði sigurinn 
 
Hattarmenn hófu sókn þegar 24 sekúndur voru eftir af leiknum og hefðu því getað haldið boltanum út leikinn. Viðar Örn Hafsteinsson reyndi skot sem geigaði en af harðfylgi hrifsaði Frisco frákastið í baráttu við tvo Blika. Hann náði að skjóta strax í þann mund sem brotið var á honum. Karfan var dæmd gild og hann fékk vítaskot að auki sem fór ofan í.

Kaninn í liði Blika, Christopher Matthews, reyndi að tryggja gestunum sigurinn með þriggja stiga skoti en það geigaði og Hattarmönnum tókst að koma boltanum út fyrir hliðarlínu og tíminn rann út.

Vörnin hefði mátt vera betri 
 
Viðar Örn, þjálfari Hattar, sagðist sáttur við spilamennsku síns liðs í leikslok. Hann hefði samt kosið sterkari varnarleik. „Þetta var hörkuleikur. Við spiluðum þetta heilt yfir mjög vel, Það komu kaflar varnarlega þar sem að við vorum ekki alveg nógu snjallir en sóknarlega gátum við alltaf skorað. 

Það var kannski útaf slæmum varnarköflum sem við náðum ekki að hrista þá af okkur, okkur gekk vel að stoppa Kanann hjá þeim en vorum í ákveðnu brasi með aðra leikmenn.“

Eysteinn í landsliðið
 
Viðar var ánægður með breiddina í liðinu en þeir Eysteinn Bjarni Ævarsson og Benedikt Þorvaldur Guðgeirsson Hjarðar spiluðu einn sinn besta leik í vetur en þeir skoruðu báðir 13 stig. „Við fengum meira framlag frá fleiri leikmönnum sem er virkilega jákvætt. Ég var mjög sáttur við Benna og Eystein í þessum leik.“
 
Í dag var tilkynnt að Eysteinn Bjarni hefði verið valinn í íslenska U-18 ára landsliðið sem tekur þátt í Norðurlandamótinu sem fram fer í Svíþjóð í maí.
 
Frisco Sandidge átti enn einn stórleikinn fyrir Hött, skoraði 26 stig og tók 15 fráköst. Vikuna áður skoraði hann 50 stig í sigri á Reyni Sandgerði. Atli Örn Gunnarsson skoraði 29 stig og tók 14 fráköst í liði Breiðabliks og Þorsteinn Gunnlaugsson tók fimmtán fráköst og skoraði 24 stig.

Höttur er í fjórða sæti með 20 stig þegar þrjár umferðar eru eftir af deildarkeppninni. Fimm efstu liðin komast í úrslitakeppnina. Liðið mætir næst Hamri á föstudagskvöld í Hveragerði. 
 
karfa_hottur_breidablik_28022013.jpgkarfa_hottur_breidablik_28022013.jpgkarfa_hottur_breidablik_28022013.jpgkarfa_hottur_breidablik_28022013.jpgkarfa_hottur_breidablik_28022013.jpgkarfa_hottur_breidablik_28022013.jpgkarfa_hottur_breidablik_28022013.jpgkarfa_hottur_breidablik_28022013.jpgkarfa_hottur_breidablik_28022013.jpg
 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar