Karfa: Höttur tekur á móti ÍA í kvöld
Höttur tekur á móti Skagamönnum í 1. deild karla í körfuknattleik í kvöld. Hattarmenn vonast eftir að komast á beinu brautina á ný eftir að hafa tapað tveimur fyrstu leikjum ársins.
Höttur tapaði um síðustu helgi fyrir Þór á Akureyri 98-87. Leikurinn var jafn framan af og Hattarmenn meira að segja yfir í byrjun síðasta leikhluta.
Það varð þeim nokkurt áfall þegar Andrés Kristleifsson fékk sína aðra tæknivillu og þar með útilokun frá leiknum. Eftir það hrundi leikur Hattar og heimamenn unnu ellefu stiga sigur. Andrés fékk í vikunni áminningu fyrir tæknivillurnar frá Körfuknattleikssambandinu.
Höttur er í fjórða sæti deildarinnar með tólf stig, jafn mörg og Þór í fimmta sætinu. ÍA er hins vegar neðst með aðeins einn sigurleik á tímabilinu.
Leikurinn hefst í íþróttahúsinu á Egilsstöðum klukkan 18:30. Austurfrétt lýsir leiknum á Twitter.