Karfa: Íslandsmeistararnir í heimsókn í kvöld – Tækifæri til að bera sig saman við þá bestu

Íslandsmeistarar KR mæta Hetti í fjórðungsúrslitum bikarkeppni karla í körfuknattleik á Egilsstöðum í kvöld. Þjálfari Hattar segir mikilvægt fyrir liðsmenn sína að hafa trú á verkefninu.


„Ef þú ætlar að veðja á leikinn þá eru líkurnar ekki með okkur en ef við spilum okkar besta leik þá eigum við að geta unnið,“ segir Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar.

KR er í 1. – 2. sæti úrvalsdeildarinnar og er nýkomið með í sínar raðir Jón Arnór Stefánsson, besta körfuknattleiksmann þjóðarinnar undanfarinn áratug.

„Þetta er stundin til að bera sig saman við þá bestu. Jón Arnór spilar á Íslandi í fyrsta sinn í átta ár. Þetta er eins og Gylfi Sigurðsson væri að koma hingað að spila fótbolta. Það er gaman fyrir krakkana á svæðinu að sjá þessa stráka og fyrir okkur að slá þá út.

Við erum einum leik frá því að komast í Laugardalshöllina og þegar við fórum af stað í bikarnum töluðum við um að það væri gaman að komast þangað.“

Höttur hefur verið í fínu formi og styrkti stöðu sína á toppi fyrstu deildar með tveimur stórsigrum á botnliði Ármanns um helgina, 106-79 á föstudag og 102-55 á laugardag.

„Þessir leikir voru eiginlega skylduverkefni fyrir okkur. Það var ágætt að fá leiki til að hlaupa sig í gang eftir mánaðarlangt jólafrí. Við vorum daufir og kraftlitlir í fyrri leiknum en takturinn var betri í þeim seinni. Kannski var hugurinn kominn í leikinn gegn KR. Það er að minnsta kosti mikil tilhlökkun fyrir hann.“

Það er vissulega strembið að spila fjóra leiki á þremur dögum og hefði getað verið verra en heimaleik sem Höttur átti gegn Val á miðvikudag var frestað út af bikarleiknum. Viðar notaði hins vegar tækifærið um helgina til að gefa leikmönnum sem minna hafa spilað tækifæri, til dæmis spiluðu Elfar Veigur Ævarsson og Bjarni Björnsson sína fyrstu leiki með meistaraflokki.

Leikurinn gegn KR hefst klukkan 18:30 í kvöld.

Karfa Hottur Armann Jan17 0001 Web
Karfa Hottur Armann Jan17 0004 Web
Karfa Hottur Armann Jan17 0009 Web
Karfa Hottur Armann Jan17 0013 Web
Karfa Hottur Armann Jan17 0032 Web
Karfa Hottur Armann Jan17 0037 Web
Karfa Hottur Armann Jan17 0043 Web
Karfa Hottur Armann Jan17 0069 Web
Karfa Hottur Armann Jan17 0090 Web
Karfa Hottur Armann Jan17 0094 Web
Karfa Hottur Armann Jan17 0103 Web
Karfa Hottur Armann Jan17 0106 Web
Karfa Hottur Armann Jan17 0126 Web

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar