Karfa: Stórleikur við Hamar í kvöld og nýr samningur við þjálfarann

thorhallur_hardarson_vidar_orn_deal_nov12.jpg
Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar í körfuknattleik, hefur skrifað undir nýjan tveggja ára samning við félagið. Liðið tekur í kvöld á móti hans gamla félagi, Hamri, í stórleik í fyrstu deild karla.

Viðar skrifaði nýverið undir samning til ársins 2014 en hann tók við liðinu sumarið 2011. Liðið náði ágætis árangri á síðustu leiktíð þegar það komst í úrslitakeppni deildarinnar. Æft var í sumar og hefur liðið unnið fimm af fyrstu sex leikjum tímabilsins.

Hamar úr Hveragerði kemur í heimsókn í kvöld klukkan 18:30 en Viðar lék með liðinu um tíma á námsárum sínum. Hamarsliðið er með þeim sterkustu í deildinni og hefur unnið fyrstu fimm leiki sína. Höttur vann hins vegar báðar rimmurnar í fyrra.

„Hamarsliðið er mjög sterkt. Þetta er hávaxið lið með átta sterka leikmenn sem hafa allir reynslu úr efstu deild. Þessi leikur skiptir okur miklu máli ef við ætlum okkur að vera á toppnum yfir jólin,“ sagði Viðar Örn í samtali við Austurfrétt.

Þá stendur til að halda körfuboltabúðir næsta sumar en körfuknattleiksdeild Hattar stefnir á að fjölga iðkendum verulega.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.