Karfan hefst í kvöld: Verið spenntir síðan á mánudag

hottur_karfa_okt2012.jpg
Höttur hefur keppni í fyrstu deild karla klukkan 18:30 kvöld þegar liðið tekur á móti Þór frá Akureyri á Egilsstöðum. Nokkrar mannabreytingar hafa orðið og lykilmenn horfið á braut. Þjálfarinn segir liðið vel undirbúið og tilbúið í mótið. Meðal leikmannanna ríkir mikil eftirvænting fyrir fyrsta leik.

„Ég er búinn að vera spenntur síðan á mánudag. Þetta hefur verið löng vika,“ segir Benedikt Þorvaldur Guðgeirsson Hjarðar sem ásamt Andrési Kristleifssyni verður fyrirliði liðsins í vetur. „Þjálfarinn ákvað að við myndum deila ábyrgðinni. Það er gott að hafa tvo ef það þarf að róa marga niður.“

Andrés segir liðið stefna á að komast upp í úrvalsdeildina en í fyrra féll liðið úr leik gegn Skallagrími í undanúrslitum eftir að hafa orðið í öðru sæti og þannig áunnið sér heimaleikjarétt í úrslitakeppninni. „Við stefnum einfaldlega á toppinn.“

Útlendingunum fækkað með reglubreytingu

Reglubreytingar þvinguðu fram mannaskipti þar sem aðeins má vera með einn erlendan leikmann inn á í einu í fyrstu deildinni. Bandaríkjamennirnir Michael Sloan og Trevon Bryant eru farnir auk Bjarka Oddssonar, sem nú þjálfar Þórsliðið. Í staðinn er kominn framherjinn Frisco Sandige og hinn hálfíslenski Austin Magnús Bracey sem í fyrra spilaði með Val.

„Við erum með menn sem eru tilbúnir að fylla þau skörð sem mynduðust. Við erum allir árinu eldri, sumum er það til góðs öðrum ekki,“ segir þjálfarinn Viðar Örn Hafsteinsson sem hrósar sérstaklega Austin Magnúsi.

„Hann er miklu betri leikmaður en ég bjóst við. Hann er ungur, rétt rúmlega tvítugur og þrusugóður.“

Hattarmenn reyndu að fá til sín fleiri íslenska leikmenn í sumar en það gekk erfiðlega. „Það er ekkert leyndarmál að við töluðum við menn eins og Björn Steinar (Brynjólfsson) og Pál Aexl Vilbergsson úr Grindavík og fleiri en þeir voru ekki tilbúnir að flytja austur. Íslendingar sem spila á svæðinu og spila körfu vita að þeir eru alltaf velkomnir til okkar.“

Meiri undirbúningur en undanfarin árin

Viðar segir liðið vel undirbúið fyrir mótið. „Við komum snemma saman og útlendingarnir komu fyrr en undanfarin ár. Liðið hefur spilað fleiri leiki í haust heldur en undanfarin fimm ár samanlagt. Leikmennirnir hafa lagt mikið á sig í sumar og við teljum okkur tilbúna í mótið.“

Það má segja að það sé nágrannaslagur þegar Þór og Höttur mætast, fulltrúar Austurlands og Norðurlands í körfuknattleiknum. Það kryddar leikinn enn frekar að Bjarki skuli hafa leikið með Hetti í fyrra en þjálfi nú Þór.

„Hann er með þrusugott lið í höndunum,“ segir Viðar. Hann reiknar samt ekki með að þekking Bjarka á Hattarliðinu gefi honum neitt sérstakt forskot. „Ég held að körfuboltaheimurinn á Íslandi sé þannig að allir þekki alla. Það gerast ekki nein undir og stórmerki þegar Höttur og Þór mættast. Þetta verður bara þrusunágrannaslagur.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar