Karlalið Þróttar í bikarúrslit í annað skiptið í sögunni

Karlalið Þróttar leikur í dag til úrslita í bikarkeppni karla í blaki í annað skiptið í sögu félagsins. Liðið mætir Hamri eftir að hafa lagt Stál-úlf í oddahrinu í undanúrslitunum í gær. Þjálfari liðsins segir liðið þurfa að hitta á góðan dag til að landa bikarnum.

Sveiflur voru í fyrsti hrinunum, Þróttur vann þá fyrstu 25-16 en Stál-úlfur svaraði strax í næstu með sömu stigatölu.

Liðin skiptust sex sinnum á forustu í þriðju hrinu sem endaði með að Þróttur vann eftir upphækkun, 27-25. Sveiflurnar voru allt til loka þar sem bæði lið fengu færi til að klára hrinuna. Stál-úlfur var yfir 22-23, Þróttur komst í 24-23, Stálúlfur var yfir 24-25 en Þróttur skoraði síðustu þrjú stigin.

Stál-úlfur vann fjórðu hrinuna 21-25 og knúði þar með fram oddahrinu. Þar var Þróttur á undan þar til Stál-úlfur jafnaði í 11-11. Þróttur var áfram að undan að skora en Stál-úlfur jafnaði tvisvar í viðbót áður en Þróttur skoraði tvö stig í röð og vann 15-13.

„Leikurinn hjá okkur var upp og niður en þeir spiluðu frábærlega. Við höfðum fleiri vopn í safninu meðan þeir sóttu mest á einum leikmanni. Á endanum knúðum við þetta fram,“ segir Atli Freyr Björnsson, þjálfari Þróttar.

Hamar með góða leikmenn í öllum stöðum


Innan við sólarhringur er milli leikjanna þannig að Þróttur hefur skamman tíma til undirbúnings. Atli Freyr segir það koma jafnt niður á báðum liðum sem þekkist vel.

„Við höfum spilað tvisvar í vetur við Hamar og þekkjum liðið alveg. Hamar er í sömu stöðu því liðið spilaði líka fimm hrinur í gær. Það er því ekki mikill tími í taktískan undirbúning en við sáum þeirra leik í gær og förum aðeins yfir hann í dag. Við undirbjuggum leikinn aðeins í vikunni en mest snýst þetta um að menn hafi hvílst og nái að gíra sig upp.“

Hamar hefur verið besta lið landsins síðustu ár og varð efst í deildarkeppninni. Hveragerðisliðið telst því sigurstranglegra fyrirfram og Atli segir að Þróttur þurfi að hitta á virkilegan góðan dag til að ná bikarnum.

„Hamar er með vel samsett lið með sterka leikmenn í öllum stöðum. Ef einhver á vondan dag þá geta aðrir tekið við. Þetta er lið sem getur ýmist hraðað eða hægt á leiknum. Það er hægt að vinna þá en til þess þarf allt að ganga upp í langan tíma, sem er hægara sagt í gert. Liðið hefur ekki sýnt veikleikamerki í vetur en þau sáust þó aðeins í gær og það er spurning hvort hægt sé að hamra á þeim. Ef við höfum trú á verkefninu þá eigum við að geta gefið þeim alvöru leik,“ segir Atli.

Allir leikmenn Þróttar eiga að vera heilir nema fyrirliðinn Andri Snær Sigurjónsson sem hefur glímt við handameiðsli. Hann kom þó aðeins við sögu í gær. „Hann stóð sig vel.“

Leikurinn hefst klukkan 15:00 og verður í beinni útsendingu á aðalrás RÚV.

Mynd: Blaksamband Íslands/Mummi Lú

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.