Kemur Ricky Lightfoot Dyrfjallahlaupinu á kortið?

Brautarmet féllu bæði í kvenna og karlaflokki í Dyrfjallahlaupinu sem fram fór síðastliðin laugardag. Hlaupastjórinn, Inga Fanney Sigurðardóttir, segist viss um að hlaupið eigi eftir að verða vinsælt í framtíðinni.



Hlaupið er nú haldið annað árið í röð, en um er að ræða 23 kílómetra utanvegahlaup þar sem farið er um Dyrfjöll og Stórurð með endamarki á Borgarfirði eystri. Alls fóru 116 hlauparar af stað en 113 kláruðu hlaupið.

„Þetta gekk alveg rosalega vel og í rauninni eins og í sögu. Við fundum mikinn mun milli ára, þetta gekk eins og smurt og augljóst að fólk hafði komið að þessu áður,“ segir Inga Fanney. Nýjir brautarmetshafar eru þau Ricky Lightfoot sem kom í mark á tímanum 01:58:11 og Elísabet Margeirsdóttir sem kláraði hlaupið á 2:30:27.

Dyrfjallahlaupið á við „Fell-running“ í Bretlandi
Inga Fanney segir að Dyrfjallahlaupið sé eitt erfiðasta utanvegahlaup sem haldið er hérlendis. „Hlaupið er tæknilega flókið og þá sérstaklega síðustu 17 kílómetrarnir þar sem undirlendið er allsskonar; stórgrýti, smágrýti, snjór, lækir, mosi, mýri og hvaðeina. Þá er einnig mikil hækkun, eða um 1000 metrar á ekki lengri vegalengd, sem er mjög mikið. Segja má að hlaupið sé það sem kemst næst svokölluðu „Fell-running“ sem er vinsælt sport í Bretlandi, þar sem bara er hlaupið um fjöll án þess að vera á stígum eða slóðum, þannig að Dyrfjallahlaupið er í rauninni alvöru fjallahlaup.“

„Fyrst og fremst heiður að fá hann til að hlaupa með okkur“
Ricky Lightfoot er fyrrverandi heimsmeistari í utanvegahlaupi. „Ég þekki Ricky síðan við unnum saman þegar Salomon-running TV kom til Íslands til þess að gera þátt um utanvegahlaup hérlendis. Salomon er stórt vörumerki í hlaupabransanum sem margir þekktir íþróttamenn eru styrktir af og prófa vörurnar, en margir þeirra eru bestu hlauparar í heimi. Ég hafði samband við Ricky og spurði hvort hann væri ekki til í að koma og hlaupa, sem og hann gerði  með glæsibrag. Það var mikill heiður að fá hann til þess að hlaupa með okkur.“

Dyrfjallahlaupið líkist „Fell-running“
Ricky er vel þekktur innan hlaupasamfélagsins og honum fylgja yfir 12.000 manns á Instagram og annað eins á Facebook, þar sem hann sýnir frá þeim stöðum sem hann hleypur á. Á því varð engin undantekning um helgina. Telur Inga Fanney það einhverju skipta fyrir Dyrfjallahlaupið?

„Ég er viss um að það skipti sköpum fyrir hlaupið að ári, í það minnsta vita þá erlendir hlauparar af þessum möguleika. Hann var svakalega hrifinn og sagði að sér hefði liðið eins og hann væri að hlaupa Fell-running heima í Bretlandi. Brautin átti vel við hann og hann segist spenntur fyrir því að koma aftur að ári og ég vona bara að hann verði árlegur gestur og taki vini sína með sér, bæði frá Bretlandi og úr Salomon-hlaupasamfélaginu. Það er þó ekkert endilega eitthvað kappsmál fyrir okkur að vera með einhvern mikinn fjölda þátttakaenda í hlaupinu, en það er bara svo vel að þessu staðið þannig að ég veit að það á eftir að stækka og dafna og líklega þróast á þann veg að færri komast að en vilja í framtíðinni.“

Sjálfboðaliðar „peppuðu“ hlaupara áfram
Inga Fanney er himinlifandi með að fá að taka þátt í mótun og skipulagningu Dyrfjallahlaupsins, sem haldið er af Ungmennafélaginu á Borgarfirði.

„Ég er fáránlega heppin að UMFB hafði samband við mig í fyrra þar sen ég var beðin um að koma að skipulagningu. Hlaupið hefði þó aldrei orðið að veruleika nema fyrir það ótrúlega fólk sem býr á Borgarfirði sem kemur bara í hrúgum og biður um að fá að taka þátt og aðstoða með einhverjum hætti. Það voru mjög margir sjálfboðaliðar starfandi, bæði einstaklingar og meðlimar björgunarsveita, bæði á drykkjarstöðvum og í allskonar verkefnum. Það gerir gæfumuninn fyrir hlaupara sem margir minntust á hve gott fyrirkomulagið væri. Einnig að það væri ómetanlegt að hafa sjálfboðaliða á drykkjarstöðvunum sem peppuðu hlaupara áfram og skemmtu sjálfum sér og öðrum, en allir sameinast um að hafa gaman.“

Mælir með að æfa sig upp í fjöllum
Hvað með þá sem ekki eru í hlaupaformi en hafa áhuga á að taka þátt að ári, er það gerlegt? „Já, já, það er alveg gerlegt. Ég mæli bara með því að hlaupa upp í fjöll, ekki vera að hamast á malbikinu við það að telja kílómetra. Bara fara upp í fjöll og reyna að bæta hraðann smám saman, það er að mínu mati besta æfingin fyrir Dryfjallahlaupið að ári.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.