Keppni í nákvæmni

Skotfélag Austurlands (SKAUST) hélt um síðustu helgi sitt fyrsta Íslandsmót á vegum Skotsambands Íslands þegar keppt var í riffilskotfimi í klösum á félagssvæði þess við Þuríðarstaði á Eyvindarárdal.

„Þegar skotið er klösum þá skýtur hver keppandi fimm skotum á eins lítið gat og hægt er. Sigurvegarinn er sá þar sem minnst bil er milli skota.

Þarna er farið eins langt og hægt er í nákvæmninni. Þetta er formúla skotíþróttanna, búnaðurinn er eins góður og hægt er, það er allt orðið sérsmíðað. Samt er það þó að á endanum vinnur sá sem skýtur þegar minnstur vindur er,“ segir Hjalti Stefánsson, mótsstjóri.

En það er fleira en rifflarnir sem eru sérsmíðaðir. „Ég smíðaði bakka, blað fyrir aftan skotskífuna sem sýnir fram á að það hafi sannarlega verið skotið fimm skotum,“ útskýrir Hjalti.

Keppt var í tveimur flokkum, skotið annars vegar af 100 metra og 200 metra færi auk þess sem verðlaunað var fyrir bestan árangur samanlagt. Kristbjörn Tryggvason sigraði 100 metra keppnina, Erla Sigurgeirsdóttir 200 metra keppnina og Wimol Sudee í samanlagðri keppni. Þau koma öll úr Skotfélagi Akureyrar.

Hjalti segir að hjá SKAUST hafi byggst upp mikil reynsla á síðustu árum með reglulegu mótahaldi. „Við höfum haldið 10-12 mót á ári. Við erum líka með svæði sem býður upp á allt að 600 metra langa braut.“

Mynd: Hjalti Stefánsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar