KFA sektað vegna blysa stuðningsmanna

Knattspyrnufélag Austfjarða hefur verið sektað um 50.000 krónur vegna þess að stuðningsmenn félagsins kveiktu á blysum í leik þess gegn Hetti/Huginn í júní. Skemmdir urðu á gervigrasi Fellavallar eftir að blys lentu þar.

Úrskurður aganefndar Knattspyrnusambands Íslands var birtur nýverið á vef sambandsins. Þar er vitnað í greinargerð Hattar/Hugins um að gæslumaður hafi farið strax á vettvang eftir að kveikt var á blysum en athugasemdir hans ekki borið árangur.

Þvert á móti fékk gæslumaðurinn skammir og féll að lokum við í brekkunni eftir ryskingar við stuðningsmenn KFA. Þá er tekið fram að skemmdir hafi orðið á nýju gervigrasi Fellavallar vegna blysa. Þær urðu þó utan við hliðarlínu.

KFA skilaði inn greinargerð vegna málsins. Ekki er notað annað úr henni í úrskurðinum en að ekki sé mótmælt að stuðningsmenn félagsins hafi verið með blys.

Aganefndin segir að í greinargerðunum beggja sé ekki nógu skýrt tekið fram með hvaða hætti áhorfendur kunni að hafa brotið annað ákvæði í reglugerðum sambandsins, sem heimilar sektir eða jafnvel heimaleikjabann við endurtekin brot. Þess vegna er ekki nánar aðhafst í þeim málum.

Austurfrétt óskaði eftir afriti af greinargerðunum frá KSÍ en samkvæmt reglum sambandsins eru þær ekki afhentar þriðja aðila. Stuðningsmenn KFA, sem Austurfrétt ræddi við eftir leikinn, bentu á að gæslumenn hefðu ekki verið auðkenndir samkvæmt reglum. Ekki er komið inn á það í úrskurðinum.

Þar segir hins vegar að samkvæmt reglugerðum KSÍ beri hvert félag ábyrgð á framkomu sinna stuðningsmanna. Að tendra á blysum í hópi áhorfenda teljist vítaverð framkoma og hættulegt gagnvart öðrum.

Sekt KFA er í ætt við aðrar sem lagðar hafa verið á vegna blysnotkunar. Á sama tíma voru ÍR og ÍBV einnig sektuð vegna blysnotkunar stuðningsfólks. KFA vann leikinn 3-4.

Út úr reglubundnum úrskurðum nefndarinnar má einnig lesa að Höttur/Huginn hafi fengið átta þúsund króna sekt vegna fjölda áminninga sem liðið fékk í leik liðanna í ágúst. Þann leik vann KFA 8-2.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar