KFA taplaust í Íslandsmótinu en þjálfarinn vill samt meira

Knattspyrnufélag Austfjarða hefur ekki tapað enn í fyrstu tólf leikjum sínum í Íslandsmóti karla í knattspyrnu í sumar. Liðið hefur hins vegar gert sjö jafntefli sem er of mikið að mati þjálfarans. Nágrannaslagur verður í kvöld þegar KFA og Höttur/Huginn mætast í 16 liða úrslitum Fotbolti.net bikarsins.

„Þetta er fínn árangur en væri betri með aðeins fleiri stigum. Jafnteflin hafa mörg verið í leikjum sem mér fannst við eiga að vinna og því helvíti súr,“ segir Mikael Nikulásson, þjálfari KFA.

Hann tók við liðinu í lok síðasta árs. Liðið er núna í öðru sæti sem er viðsnúningur eftir að hafa verið í neðri hlutanum í fyrra og hitt í fyrra, þótt þá væri um að ræða tvö lið: Fjarðabyggð og Leikni Fáskrúðsfirði.

„Ég get ekki sagt um hvað hefur breyst frá fyrri árum en við æfðum vel í vetur svo mögulega hafa einhverjir leikmenn verið í betra standi. Mér fannst lykilatriði að fá leikmenn af svæðinu til baka til að styrkja hópinn og þeir Unnar Ari Hansson og Arek Grzelak komu. Við misstum erlenda leikmenn en fengum aðra í staðinn.“

Leist strax vel á liðið


Bjartsýni ríkti því þegar mótið var að hefjast í vor og ekki skemmdi fyrir að liðinu gekk vel í Lengjubikarnum, tapaði einum leik í riðlinum þegar það var komið áfram og féll út í undanúrslitum í vítaspyrnukeppni.

„Ég sá strax að KFA væri lið sem gæti barist í efri hluta deildarinnar. Við erum að minnsta kosti þar. Við settum markið hátt fyrir sumarið því ég taldi og tel enn að það sé ekkert betra fótboltalið í deildinni en KFA. Á móti kemur að það geta líka öll liðin unnið okkur, eins og hefur sannast.“

Misst unna leiki í jafntefli


Sjö jafntefli þýða hins vegar að þótt liðið sé í toppbaráttu þá er það ekki í neinni yfirburðastöðu. KFA er með 22 stig, fjórum á eftir efsta liðinu Víking Ólafsvík en með jafn mörg og Dalvík/Reyni sem unnið hefur fimm leiki í röð. Þá er árangur liðsins á útivelli áhugaverðir, allir leikirnir fimm hafa endað með jafntefli meðan það hefur unnið fimm og gert tvö jafntefli í Fjarðabyggðarhöllinni.

„Við höfum verið klaufar, spilað einum færri frá fyrri hálfleik eða fengið á okkur mörk í uppbótartíma. Það er hægt að horfa á þessi jafntefli frá tveimur sjónarhornum. Um síðustu helgi gerðum við jafntefli á heimavelli við Þrótt Vogum, eitt besta lið deildarinnar, eftir að hafa lent undir. Þar tapaði Þróttur líka tveimur stigum í baráttu við okkur. Á móti eru leikir eins og gegn Völsungi þar sem við fáum á okkur jöfnunarmark á 99. mínútu. Þar töpuðum við stigi gegn liði neðar í deildinni. Slík jafntefli gefa okkur ekki mikið.

Ef hausinn hefði verið aðeins betur skrúfaður á okkur þá hefðum við að mínu viti getað verið búnir að vinna átta leiki í deildinni og þá hefðum við verið skælbrosandi í góðri stöðu. Þessi árangur sýnir hins vegar að það er erfitt að vinna okkur.

Það er áhyggjuefni að við höfum ekki spilað jafn vel á útivelli og heimavelli. Við eigum eftir fleiri útileiki en heimavelli og við verðum að fara að vinna útileiki ef við ætlum okkur að berjast til loka um að fara upp. Í næstu vikum eigum við útileiki gegn liðunum í fallsætunum, KV og Fjallabyggð og þar þurfum við að sýna okkur hvað við ætlum okkur. Það væri súrt að fara taplaus í gegnum mótið og trúlega eindæmi sem vonandi verður ekki okkar saga.“

Annað sem árangurinn í útileikjunum gefur til kynna er munur sé að leika undir berum himni eða inni í knattspyrnuhöll eins og KFA gerir oftast. „Liðinu gekk líka illa utandyra í fyrra. Margir leikmanna okkar hafa æft í höllinni frá unga aldri. Auðvitað getur verið smá munur að vera inni eða úti. Þú veist hvernig veðrið er og undirlagið inni. Á móti sést að liðin sem mæta okkur þar eru oftast í vandræðum í fyrri hálfleik. Málið er hins vegar að víðast hvar í heiminum er fótbolti spilaður utanhúss. Við getum samt ekki kvartað undan veðrinu í leikjum okkar utandyra. KFA hefur verið heppið með það í sumar.“

Nágrannaslagur á Eskjuvelli


Leikur KFA og Hugins/Hattar í Fotbolti.net bikarnum verður einmitt utanhúss á Eskjuvelli í kvöld. Mikael segir það meðal annars gert til að undirbúa liðið fyrir komandi útileiki. „Vonandi brjótum við ísinn í kvöld. Við ætlum okkur að nota tækifærið til að æfa fyrir leikina tvo.“

Um er að ræða bikarkeppni, sem leikin er í fyrsta sinn, fyrir liðin í 2. – 4. deild. KFA vann Skallagrím í Borgarnesi í fyrstu umferðinni eftir vítakeppni meðan Höttur/Huginn vann Uppsveitir 0-4. „Við höfum séð liðin úr annarri deildinni gefa leikmönnum tækifæri sem annars spila minna og það getur verið varasamt ef liðin úr neðri deildunum stilla upp sínu sterkasta liði. Við gerðum breytingar fyrir leikinn gegn Skallagrími sem virkuðu ekki og vorum heppnir að tapa ekki. Áherslan er samt meiri á deildina.

Það er gaman að þessi tvö lið hafi dregist saman, þótt við hefðum gjarnan viljað vera komin lengra í keppninni. Ef við hefðum átt leik á laugardag þá hefðum við hvílt. Við gerum samt örugglega einhverjar breytingar til að skoða leikmenn og dreifa álaginu. Við teljum að flestir í okkar 18-20 manna hóp geti komið inn án þess að veikja liðið.“

Mynd: Jón Guðmundsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.