Knattspyrna: Alltaf skemmtilegast að spila á sínum heimavelli

Huginn spilaði sinn fyrsta alvöru heimaleik á tímabilinu á laugardag þegar liðið gerði 2-2 jafntefli við Aftureldingu í annarri deild karla í knattspyrnu. Völlurinn á Seyðisfirði hefur verið óleikhæfur það sem af er sumri.


„Ástandið á vellinum er fínt eins og er. Það er búið að vera þurrt í rúma viku,“ segir Brynjar Skúlason, þjálfari Hugins.

Stemmingin hefur löngum verið góð á Seyðisfjarðarvelli og ekki spillti fyrir að óvenju fjölmennt var á leiknum þar sem bærinn var fullur af fólki út af LungA-hátíðinni.

„Það mæta þrisvar til fjórum sinnum fleiri á leik þegar LungA er heldur en gera á leiki okkar á Fellavelli. Stemmingin um helgina var góð enda er alltaf skemmtilegast að spila á sínum heimavelli.“

Mörkin í leiknum voru öll skoruð á tíu mínútna kafla í seinni hálfleik. Gonzalo Leon og Milos Ivanovic komu Huginn tvisvar yfir en gestirnir jöfnuðu strax aftur. Liðin eru í þriðja og fjórða sæti deildarinnar en jafnteflið þýddi að Huginn fjarlægðist efstu liðin, Magna og Njarðvík, lítillega.

„Það er allt opið enn, mörg stig eftir í pottinum og lið sem eiga eftir að spila innbyrðis. Það er helvíti súrt að hafa ekki náð að nýta eitthvað af þessum færum sem við fengum í upphafi móts.

Við höfum verið á góðu skrið og ekki tapað síðan í annarri umferð. Afturelding er eina liðið sem við höfum tapað fyrir svo þetta voru tvö fín lið sem mættust um helgina.“

Þrír sigrar Fjarðabyggðar í röð

Í sömu deild vann Fjarðabyggð sinn þriðja leik í röð þegar liðið vann Tindastól 2-3. Enrique Rivas, sem spilaði sinn fyrsta leik fyrir liðið í síðustu viku, skoraði tvö dýrmæt mörk í seinni hálfleik. Áður hafði Loic Ondo jafnað eftir að heimamenn höfðu komist yfir.

Lið Fjarðabyggðar lék mann færri frá 28. mínútu, þegar staðan var enn 1-1, eftir að Georgi Karaneychev fékk beint rautt spjald. Leikmaður heimamanna fékk rautt spjald fyrir tvær áminningar skömmu fyrir leikslok.

Fjarðabyggð er enn í fallsæti en aðeins á markamun því liðið er með 14 stig líkt og KV sem tapaði fyrir Hetti 0-2 um helgina. Ignacio Martinez og Brynjar Árnason skoruðu mörk Hattar í seinni hálfleik.

Leiknir tapaði fyrir Keflavík 2-4 um helgina í fyrstu deild og er í botnsætinu. Valdimar Ingi Jónsson kom Leikni yfir strax á fjórðu mínútu með glæsilegu langskoti en Keflvíkingar jöfnuðu skömmu seinna. Þeir komust yfir snemma í seinni hálfleik en Hilmar Freyr Bjartþórsson jafnaði á 80. mínútu með marki beint úr aukaspyrnu. Eftir sem áður var tími eftir fyrir Keflavík til að bæta við tveimur mörkum.

Í þriðju deild gerði Einherji 1-1 jafntefli við Þrótt Vogum á Vopnafirði. Sigurður Donys Sigurðsson kom Einherja yfir með marki beint úr aukaspyrnu á 37. mínútu en gestirnir jöfnuðu þremur mínútum fyrir lok venjulegs leiktíma. Einherjamenn voru manni færri frá miðjum seinni hálfleik þegar Bjartur Aðalbjörnsson fékk sitt annað gula spjald.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.