Knattspyrna: Annar ósigur KFA í röð
Eftir fimmtán leiki í röð án ósigurs hefur KFA tapað tveimur leikjum í röð. Liðið féll úr toppsæti annarrar deildar karla þegar liðið tapaði fyrir Völsungi á heimavelli í gærkvöldi. Höttur/Huginn vann Sindra á sama tíma á Höfn.Kifah Mourad, sem alinn er upp í Leikni Fáskrúðsfirði, kom Völsungi yfir á sjöundu mínútu. Húsavíkurliðið bætti við öðru marki eftir tíu mínútna leik í seinni hálfleik. Marteinn Már Sverrisson minnkaði muninn þegar kortér var eftir. KFA sótti í von um að ná að jafna síðustu mínúturnar en hafði ekki erindi sem erfiði.
Liðið komst í efsta sæti deildarinnar undir lok júlí eftir 15 leiki í röð án ósigurs og hafði fimm stiga forustu fyrir verslunarmannahelgi. Það forskot er nú farið því liðið hefur tapað báðum leikjum sínum eftir verslunarmannahelgina.
Dalvík/Reynir náði í gærkvöldi efsta sætinu, er með 32 stig en KFA 31. Baráttan er hörð á toppnum, Víkingur Ólafsvík rétti við í gær eftir fjóra leiki án sigurs og komst í 30 stig en Þróttur Vogum er með 29 stig. Þessi lið hafa öll leikið 17 leiki. KFG og ÍR hafa aðeins leikið 16 en þau mætast í kvöld. KFG er með 27 stig og ÍR 25.
Þeirra á milli er Höttur/Huginn með 26 stig úr 17 leikjum, sem þýðir að liðið getur með lagni blandað sér í baráttuna í efri hluta deildarinnar. Liðið hefur verið á góðu skriði og unnið fjóra af síðustu fimm leikjum.
Liði vann í gær Sindra á Höfn 0-2. Víðir Freyr Ívarsson skoraði fyrra markið eftir klukkutíma leik. Bjarki Fannar Helgason fékk sitt seinna gula og þar með rautt á 70. mínútu en varamaðurinn Bjarki Sólon Daníelsson innsiglaði sigurinn á 90. mínútu.