Knattspyrna: Annar sigur Fjarðabyggðar í röð

Fjarðabyggð vann sinn annan sigur í sumar í annarri deild karla í knattspyrnu þegar liðið lagði ÍR um helgina og komst þar með upp úr botnsæti deildarinnar. Einherji vann mikilvægan sigur í fallbaráttu þriðju deildar en Höttur/Huginn tapaði toppslagnum þar.

Fjarðabyggð vann á miðvikudag sinn fyrsta sigur í sumar og um helgina kom sá annar þegar liðið vann ÍR á Eskjuvelli 3-1.

Vice Kendes kom Fjarðabyggð yfir eftir kortérs leik en gestirnir jöfnuðu á 32. mínútu. Miguel Angel kom Fjarðabyggð yfir á ný á 63. mínútu áður en Kendes skoraði aftur á þeirri 83..

Á sama tíma tapaði Leiknir Fáskrúðsfirði fyrir toppliði Þróttar Vogum 2-0. Fyrra markið kom þegar níu mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma og það seinna í uppbótartíma.

Með sigrinum komst Fjarðabyggð úr neðsta sætinu og er í 11. sæti með ellefu stig. Sjö stig eru í næsta lið, Leikni.

Í þriðju deild karla mættust Höttur/Huginn og Elliði í toppslag á Vilhjálmsvelli í gær. André Musa kom Hetti/Huginn yfir á 38. mínútu en gestirnir jöfnuðu þremur mínútum síðar.

Brynjar Þorri Magnússon kom Hetti/Huginn yfir strax aftur strax eftir tveggja mínútna leik í seinni hálfleik en gestirnir skoruðu á 58. og 66. mínútu. Þess á milli fékk þjálfari þeirra, Elmar Örn Hjaltalín, rauða spjaldið.

Höttur/Huginn er enn í efsta sæti deildarinnar með 35 stig, fjórum stigum meira en Elliði eftir leiki helgarinnar. Bæði lið eiga fimm leiki eftir.

Á Vopnafirði vann Einherji mikilvægan 4-0 sigur á ÍH. Sveiflurnar hafa verið miklar hjá Hafnfirðingum sem í vikunni unnu Tindastól 8-0. Stefan Penchev skoraði fyrir Einherja á tólftu mínútu en Ismael Moussa setti síðan þrennu.

Útlit er fyrir að liðin muni berjast um að sleppa við að falla með Tindastóli. Einherji er í ellefta sæti með 16 stig eftir 18 leiki en ÍH í tíunda með 17 stig úr 17 leikjum

Kvennalið Einherja lauk keppni í annarri deild kvenna með 2-3 sigri á ÍR í Breiðholti þar sem sigurmörkin komu í blálokin. Benedett Szels kom Einherja yfir rétt fyrir hálfleik en ÍR-ingar komust yfir með mörkum á 48. mínútu og þeirri 85.. Gabríel Sóla Magnúsdóttir jafnaði fyrir Einherja tveimur mínútum síðar og sigurmarkið, sjálfsmark, kom á fimmtu mínútu uppbótartíma.

Einherji er í 8. sæti deildarinnar með með 13 stig og markatöluna 22-22. Staðan gæti breyst því næstu lið á eftir, Hamar og Hamrarnir, mætast á föstudagskvöld. Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir vann deildina og hefur keppni í úrslitakeppninni um næstu helgi.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar