Knattspyrna: Átta mörk hjá FHL og Gróttu
Knattspyrnufélag Austfjarða er eftir leiki helgarinnar eitt örfárra liða í Íslandsmótinu í knattspyrnu sem ekki hefur enn tapað leik. Átta mörk voru skoruð þegar FHL vann Gróttu í Lengjudeild kvenna í gær.KFA var fyrst austfirsku liðanna til að spila um helgina þegar liðið gerði markalaust jafntefli við KFG í Garðabæ á föstudagskvöld. KFA er enn ósigrað en hefur hins vegar gert mörg jafntefli, fimm í átta leikjum, þar af fjögur í síðustu fimm.
Samkvæmt athugun Austurfréttar eru fimm lið í Íslandsmótum kvenna og karla í knattspyrnu sem enn eru taplaus: Afturelding og Fjölnir í Lengjudeild karla, Árborg í 4. deild, RB í A-riðli 5. deildar og Haukar í 2. deild kvenna. KFA er sem stendur í þriðja sæti annarrar deildar karla með 14 stig úr átta leikjum.
Höttur/Huginn spilaði í sömu deild í gær og vann Þrótt Vogum 3-1. Gestirnir komust yfir eftir tíu mínútur en Víðir Freyr Ívarsson jafnaði rétt fyrir leikhlé. Dani Ndi skoraði á 63. mínútu og Víðir Freyr aftur á 76. mínútu. Liðið er í sjötta sæti með 11 stig.
Spyrnir vann KFR í B-riðli 5. deildar. Guðþór Hrafn Smárason og Heiðar Logi Jónsson skoruðu mörkin í fyrri hálfleik. Spyrnir er í öðru sæti riðilsins með 13 stig úr sjö leikjum. Önnur lið eiga leik til góða.
FHL vann Gróttu 5-3 í Lengjudeild kvenna í gær. Austfjarðaliðið gerði mjög vel í að vinna þann leik því Grótta var komin í 0-2 eftir 17 mínútur. Fyrst skoraði Barbara Perez á 37. mínútu og svo jafnaði Sofia Lewis úr víti á 44. mínútu.
Natalia Cooke kom FHL yfir á 48. mínútu en Gróttustelpur jöfnuðu í 3-3 úr víti á 57. mínútu. Það gerði ekki til, FHL fékk sína aðra vítaspyrnu og þá þriðju sem dæmd var í leiknum á 61. mínútu og úr henni skoraði Sofia. Natalie bætti við fimmta markinu á þriðju mínútu uppbótartíma. FHL er í sjöunda sæti deildarinnar með níu stig úr sjö leikjum.
Einherji tapaði 1-2 fyrir ÍR í annarri deild kvenna á Vopnafirði í gær. ÍR-stelpur komust í 0-2 með mörkum á 27. og 57. mínútu en Claudia Maria minnkaði muninn á 65. mínútu. Einherji er í áttunda sæti með níu stig úr sjö leikjum.
Mynd: Jón Guðmundsson