Knattspyrna: Bæði lið fögnuðu á Vilhjálmsvelli - Myndir
Leikmenn bæði Hattar/Hugins og Ægis úr Þorlákshöfn fögnuðu að loknum leik liðanna í lokaumferð þriðju deildar karla í knattspyrnu í dag. Ægir vann 1-2 en bæði lið leika í annarri deild að ári.Meira var undir fyrir gestina í dag sem voru jafnir KFG að stigum í öðru sætinu, en með betra markahlutfall. Höttur/Huginn hafði hins vegar tryggt sér sigur í deildinni.
Arilíus Óskarsson kom Ægi yfir á 18. mínútu og þannig var staðan í hálfleik. Manuel Garcia jafnaði fyrir Hött/Huginn á 58. mínútu en Ægismenn komust aftur yfir á 70. mínútu þegar heimamenn glopruðu boltanum frá sér við að spila honum út úr vörninni. Brynjólfur Þór Eyþórsson skoraði markið.
Ægismenn héldu áfram að sækja, enda var staðan sú að KFG var að vinna Sindra 3-0 og var því komið upp fyrir á markatölu. Höttur/Huginn fékk á móti fín færi, bæði fyrir nærri opnu marki og gott skot í stöng en tókst ekki að jafna.
Á 88. mínútu fékk Kristófer Einarsson, fyrirliði Hattar/Hugins, rautt spjald fyrir að tæklingu á Cristofer Rolin sem kominn var kominn í gegnum vörn heimamanna. Hvorugu liðinu tókst að skora meira.
En í Garðabæ tókst Sindramönnum að skora tvö mörk. Þótt KFG næði einu í viðbót og 4-2 sigri þýddi það að Ægir fer upp. Bæði lið enduðu með 41 stig og 13 mörk í plús, en Ægir skoraði 42 mörk í sumar en KFG 37.
Þess vegna voru það Ægismenn sem fögnuðu ákaft þegar leikurinn var flautaður af en svo var röðin komin að Hetti/Huginn að fá bikarinn og opna kampavínið.