Knattspyrna: Einherji dregur meistaraflokk karla úr keppni

Ungmennafélagið Einherji nær ekki í lið til að senda til keppni í Íslandsmóti karla í knattspyrnu í sumar. Liðið vann fjórðu deildina í fyrra.

Þetta kemur fram í tilkynningu sem stjórn félagsins sendi frá sér í morgun. Þar segir að þetta hafi orðið niðurstaðan eftir miklar vangaveltur og tilraunir til að leysa málin en einfaldlega hafi ekki verið nægur mannskapur. Þótt þetta sé miður sé þessi ákvörðun tekin með hag félagsins að leiðarljósi.

Einherji vann í haust fjórðu deild karla og hefði því aðeins haft eins árs viðveru þar því liðið féll úr þriðju deildinni haustið 2021.

Í tilkynningunni kemur fram að Einherji ætli sér að halda áfram úti liði í Íslandsmóti kvenna. Þar sé verið að leita að þjálfara og vonast til að það takist á næstu dögum. Félagið leitar einnig að þjálfara fyrir yngri flokka en þar hefur orðið nokkur fjölgun á iðkendum í vetur.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar