Knattspyrna: Einherji og KFA með sigra helgarinnar
Knattspyrnufélag Austfjarða og Einherji voru þau austfirsku lið sem lögðu mótherja sína í Íslandsmótinu í knattspyrnu um síðustu helgi. KFA er ósigrað eftir þrjá leiki. Óveður hafði áhrif á tímasetningar leikjanna.KFA vann KV 2-0 í Fjarðabyggðarhöllinni í gær í annarri deild karla. Mörkin komu með mínútu millibili. Povilas Krasnovskis skoraði á 16 mínútu og Danilo Milenkovic strax í kjölfarið. KFA hefur unnið tvo og gert eitt jafntefli í fyrstu þremur umferðunum.
Höttur/Huginn tapaði 2-1 fyrir KFG í Garðabæ. KFG var yfir í hálfleik en Eiður Orri Ragnarsson jafnaði á 52. mínútu. Sigurmarkið kom fimm mínútum fyrir leikslok. Eftir það syrti svo verulega í álinn þegar tveir leikmenn Hattar/Hugins fengu rautt spjald. Fyrst André Musa fyrir olnbogaskot og síðan Dani Ndi fyrir leikbrot.
Báðir leikirnir voru leiknir í gær þar sem ekkert var flogið á laugardag vegna hvassviðris.
Í fimmtu deild karla tapaði Spyrnir 2-1 fyrir Smára á útivelli. Heiðar Logi Jónsson jafnaði fyrir Spyrni á 25. mínútu en sigurmarkið kom tíu mínútum fyrir leikslok.
Í Lengjudeild kvenna tapaði FHL 4-1 fyrir Víkingi í gær. Sofia Lewis minnkaði muninn í 2-1 snemma í seinni hálfleik fyrir FHL. Á fimmtudag spilaði FHL við HK á heimavelli en beið lægri hlut 1-2. Natalie Cooke kom FHL yfir rétt fyrir leikhlé en HK jafnaði á 87. mínútu og skoraði sigurmarkið í uppbótartíma. Eftir það fékk Danny El-Hage, aðstoðarþjálfari FHL, rautt spjald fyrir mótmæli.
Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður Knattspyrnusambands Íslands, var gestur á leiknum og heilsaði upp á leikmenn og forráðafólk FHL áður en hann hófst.
Einherji vann Sindra 5-0 á Vopnafirði í annarri deild kvenna. Coni Ion kom Einherja yfir strax á fimmtu mínútu. Þær Violeta Mitul, Karólína Dröfn Jónsdóttir, Viktória Szeles og Oddný Karólína Hafsteinsdóttir bættu við mörkum í seinni hálfleik. Á miðvikudag tapaði liðið hins vegar 1-0 fyrir toppliði ÍA á Akranesi. Einherji er í fjórða sæti eftir fjóra leiki.
Vanda, önnur frá vinstri, heilsar upp á Rósey Björgvinsdóttir, fyrirliða FHL og Björgu Gunnlaugsdóttur, leikmann í fylgd Hugrúnar Hjálmarsdóttur, forráðamanns félagsins. Mynd: Unnar Erlingsson