Knattspyrna: Einherji skoraði sjö mörk gegn KH

Síðustu vikur hafa verið úrkomusamar á Austurlandi og á laugardag rigndi mörkum þegar Einherji vann KH í annarri deild kvenna í knattspyrnu. Knattspyrnufélag Austfjarða er eitt þriggja liða sem er enn ósigrað á Íslandsmótinu í knattspyrnu.

Einherji burstaði Knattspyrnufélagið Hlíðarenda, úr Reykjavík, 7-2 á Vopnafirði á laugardag en staðan í hálfleik var 4-1. Karólína Dröfn Jónsdóttir skoraði fjögur mörk, Viktoria Szeles tvö og þær Oddný Karólína Hafsteinsdóttir og Claudia Maria Daga Merion sitt markið hvor. Einherji er í 8. sæti með 15 stig.

KFA hefur leikið tólf leiki án taps í annarri deild karla. Afturelding í næst efstu deild og RB í fimmtu deild eru hin liðin tvö sem ekki hafa enn tapað leik í Íslandsmótinu. KFA hefur hins vegar gert sjö jafntefli enda voru úrslit leiksins gegn Þrótti Vogum í Fjarðabyggðarhöllinni á laugardag 1-1. Gestirnir komust yfir þegar tuttugu mínútur voru eftir af leiknum en Esteban Selpa jafnaði úr víti á 82. mínútu.

KFA er áfram í öðru sæti deildarinnar með 22 stig eins og Dalvík/Reynir. Norðanliðið hefur verið á miklu skriði og unnið fimm leiki í röð. Þjálfari þess er Dragan Stojanovic sem áður þjálfaði Fjarðabyggð.

Víkingur Ólafsvík er í efsta sæti með 26 stig. Liðið vann Hött/Huginn 3-0 um helgina fyrir vestan. Austanliðið er í 8. sæti deildarinnar með 14 stig.

Spyrnir tók á móti Kría í B-riðli 5. deildar karla á laugardag í leik sem gestirnir unnu 0-3. Arnór Snær Magnússon fékk sitt annað gula spjald og þar með það rauða á 64. mínútu. Staðan þá var 0-2.

Mynd: Halldór Sigurðsson


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar