Knattspyrna: Einherji unnið sjö leiki í röð

Lið Einherja í annarri deild kvenna er komið í toppbaráttu deildarinnar eftir sjö sigurleiki í röð. FHL tryggði áframhaldandi veru sína í Lengjudeild kvenna um helgina.

Einherji vann um helgina Smára á útivelli 0-6. Violeta Mitul skoraði eina markið í fyrri hálfleik rétt fyrir leikhlé en í seinni hálfleik skoraði Viktoria Szeles þrennu og Kamilla Huld Jónsdóttir eitt auk þess sem Kópavogsliðið skoraði sjálfsmark.

Einherji er í þriðja sæti deildarinnar með 30 stig, jafn Fjölni en með verri markatölu. Á eftir koma ÍA og ÍH með 29 stig. Öll þau lið eiga leik til góða á Einherja. Einherji mætir efsta liðinu, ÍR, á útivelli um næstu helgi en tekur síðan á móti Fjölni. Vopnafjarðarliðið á fjóra leiki eftir en tvö lið fara upp í Lengjudeildina.

Um helgina tryggði FHL endanlega áfram veru sína í henni með 1-1 jafntefli við Fram á heimavelli. Fram komst yfir á 48. mínútu en Natalie Cooke jafnaði á 54. mínútu.

FHL er í 8. sæti með 17 stig þegar þrjár umferðir eru eftir. Eftir leiki helgarinnar er hins vegar ljóst að KR og Augnablik, sem eru í sætunum fyrir neðan, eru fallin.

Bæði austfirsku liðin í annarri deild karla gerðu jafntefli um helgina. Ekkert mark var skorað í leik KFA gegn Víkingi í Ólafsvík. Hetti/Huginn mistókst að nýta sér tækifæri til að blanda sér í toppbaráttuna með 2-2 jafntefli við Fjallabyggð á Egilsstöðum.

Fjallabyggð komst yfir um miðjan fyrri hálfleik en Sæbjörg Guðlaugsson jafnaði tíu mínútum síðar. Alberto Lopz kom Hetti/Huginn yfir á 59. mínútu en strax tveimur mínútum síðar hafði Fjallabyggð jafnað.

KFA er enn í öðru sæti deildarinnar með 32 stig. Það hefur ekki unnið þrjá leiki í röð og er þremur stigum frá toppliði Dalvíkur/Reynis. Eitt stig er síðan í næstu tvö lið. Höttur/Huginn er ekki fjarri, þó í 7. sæti með 27 stig. Aðeins tvö af efstu sjö liðunum unnu leiki sína um helgina.

Í fimmtu deild vann Spyrnir Afríku á Vilhjálmsvelli á laugardag 4-0. Staðan í hálfleik var 2-0. Bjarki Nóel Brynjarsson skoraði tvö mörk en þeir Almar Aðalsteinsson og Róbert Þormar Skarphéðinsson sitt markið hvor. Spyrnir er í 6. sæti deildarinnar með 22 stig og lýkur keppni um næstu helgi.

Mynd: Dóri Sig


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.