Knattspyrna: Einherji unnið sjö leiki í röð
Lið Einherja í annarri deild kvenna er komið í toppbaráttu deildarinnar eftir sjö sigurleiki í röð. FHL tryggði áframhaldandi veru sína í Lengjudeild kvenna um helgina.Einherji vann um helgina Smára á útivelli 0-6. Violeta Mitul skoraði eina markið í fyrri hálfleik rétt fyrir leikhlé en í seinni hálfleik skoraði Viktoria Szeles þrennu og Kamilla Huld Jónsdóttir eitt auk þess sem Kópavogsliðið skoraði sjálfsmark.
Einherji er í þriðja sæti deildarinnar með 30 stig, jafn Fjölni en með verri markatölu. Á eftir koma ÍA og ÍH með 29 stig. Öll þau lið eiga leik til góða á Einherja. Einherji mætir efsta liðinu, ÍR, á útivelli um næstu helgi en tekur síðan á móti Fjölni. Vopnafjarðarliðið á fjóra leiki eftir en tvö lið fara upp í Lengjudeildina.
Um helgina tryggði FHL endanlega áfram veru sína í henni með 1-1 jafntefli við Fram á heimavelli. Fram komst yfir á 48. mínútu en Natalie Cooke jafnaði á 54. mínútu.
FHL er í 8. sæti með 17 stig þegar þrjár umferðir eru eftir. Eftir leiki helgarinnar er hins vegar ljóst að KR og Augnablik, sem eru í sætunum fyrir neðan, eru fallin.
Bæði austfirsku liðin í annarri deild karla gerðu jafntefli um helgina. Ekkert mark var skorað í leik KFA gegn Víkingi í Ólafsvík. Hetti/Huginn mistókst að nýta sér tækifæri til að blanda sér í toppbaráttuna með 2-2 jafntefli við Fjallabyggð á Egilsstöðum.
Fjallabyggð komst yfir um miðjan fyrri hálfleik en Sæbjörg Guðlaugsson jafnaði tíu mínútum síðar. Alberto Lopz kom Hetti/Huginn yfir á 59. mínútu en strax tveimur mínútum síðar hafði Fjallabyggð jafnað.
KFA er enn í öðru sæti deildarinnar með 32 stig. Það hefur ekki unnið þrjá leiki í röð og er þremur stigum frá toppliði Dalvíkur/Reynis. Eitt stig er síðan í næstu tvö lið. Höttur/Huginn er ekki fjarri, þó í 7. sæti með 27 stig. Aðeins tvö af efstu sjö liðunum unnu leiki sína um helgina.
Í fimmtu deild vann Spyrnir Afríku á Vilhjálmsvelli á laugardag 4-0. Staðan í hálfleik var 2-0. Bjarki Nóel Brynjarsson skoraði tvö mörk en þeir Almar Aðalsteinsson og Róbert Þormar Skarphéðinsson sitt markið hvor. Spyrnir er í 6. sæti deildarinnar með 22 stig og lýkur keppni um næstu helgi.
Mynd: Dóri Sig