Knattspyrna: Einherji upp úr fallsæti

Lið Einherja í þriðju deild karla í knattspyrnu lyfti sér um helgina upp úr botnsæti með mikilvægum sigri á Sindra á heimavelli. Höttur/Huginn missti unninn leik niður í jafntefli í uppbótartíma.

Hornfirðingar komust yfir á 53. mínútu á Vopnafirði en Ismael Moussa jafnaði á 68. mínútu og Alejandro Barce skoraði sigurmarkið á þeirri 76. en þeir félagarnir hafa farið mikinn í liði Einherja seinni part sumars.

Með sigrinum komst Einherji upp fyrir ÍH, hefur 19 stig en Hafnafjarðarliðið 17. Bæði liðin hafa hins vegar leikið 20 leiki. Ósigurinn var hins vegar áfall fyrir Sindra sem eru meðal þeirra liða sem berjast um að fara upp um deild.

Höttur/Huginn er áfram efst í deildinni, nú með 39 stig eftir 20 leiki. Liðið gerði 2-2 jafntefli við Dalvík/Reyni á heimavelli um helgina. Staðan leit vel út fyrir Hött/Huginn framan af.

Sæbjörn Guðlaugsson kom þeim yfir á 19. mínútu og Stefan Spasic í 2-0 á 41. mínútu. Gestirnir minnkuðu muninn með marki úr vítaspyrnu í uppbótartíma fyrri hálfleik og jöfnuðu svo með marki í uppbótartíma seinni hálfleiks.

Staða Hattar/Hugins er enn nokkuð sterk en það sem flækir myndina er að tvö liðanna sem berjast um að komast upp eiga leik til góða.

Næsti leikur Hattar/Hugins er mikilvægur fyrir bæði það og Einherja því Höttur/Huginn heimsækir ÍH næsta laugardag. Sigur færi langt með að tryggja Hetti/Huginn sæti í annarri deild að ári. Gengi það eftir og Einherji næði að vinna botnlið Tindastóls á Sauðarkróki á sama tíma tryggði sæti Einherja.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.