Knattspyrna: Elvar Ægisson til Fjarðabyggðar

Knattspyrnumaðurinn Elvar Ægisson sem verið hefur lykilmaður hjá Hetti síðustu ár hefur flutt sig um set yfir Fagradalinn til Fjarðabyggðar. Huginn hefur bætt við sig tveimur sóknarmönnum. Einherji heldur efsta sætinu í C riðli fyrstu deild kvenna.


Einherji tapaði í síðasta leik Íslandsmótsins í knattspyrnu fyrir verslunarmannahelgi 6-0 fyrir Tindastóli á útivelli. Liðið réði lítt við hina ameríksu Jesse Shugg sem viku fyrr kafskaut Hött/Fjarðabyggð/Leikni í sínum fyrsta leik fyrir Sauðárkróksliðið.

Einherjastelpur halda samt efsta sætinu með 13 stig eftir 7 leiki en hafa leikið leik meira en Sindri og Hamrarnir sem eru stigi á eftir. Tindastóll er hins vegar í bestu stöðunni miðað við að hafa bara spilað fjóra leiki.

Um helgina var lokað fyrir félagaskipti í íslenska boltanum. Þó nokkrar breytingar urðu hjá austfirsku liðunum áður en það gerðist.

Elvar Þór Ægisson, sem verið hefur lykilmaður hjá Hetti frá árinu 2008, er genginn til liðs við Fjarðabyggðar. Hann hefur aðeins spilað þrjá leiki fyrir Hött í sumar. Fjarðabyggð fékk einnig Ingiberg Ólaf Jónsson sem leikið hefur flesta leiki Fram síðustu þrjú ár í efstu og næst efstu deild. Frá liðinu fór Sverrir Már Smárason aftur til Kára á Akranesi en hann lék aðeins einn leik með KFF.

Huginn fékk til sín tvo framherja. Annars vegar Gunnar Wigelund sem lék með Aftureldingu í sumar en var áður hjá KV, Reyni Sandgerði, Leikni Reykjavík og KB. Eins bætti það við sig Bosníumanninum Mirnes Slamovic. Hann er 22 ára gamall hægri kantmaður sem kemur frá FK Gorazde í næst efstu deildinni þar.

Höttur fékk til sín tvo heimamenn. Jóhann Clausen sem tilheyrði Huginn Seyðisfirði og Óttar Stein Magnússon sem í sumar hefur spilað með GG í Grindavík. Frá liðinu fór Halldór Jón Sigurður Þórðarson sem var í láni frá Fram.

Fimm leikmenn skiptu úr Einherja, þar af tveir í Geisla í Aðaldal, þeir Björn Halldórsson sem spilað hefur með fjölda austfirskra liða og Lárus Sverrisson. Bandaríkjamaðurinn Samuel Klos fór í Hamar og Guðmundur Ragnar Vignisson, sem varið hefur mark Vopnafjarðarliðsins síðustu sumur, í KH.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.