Knattspyrna: Erfið helgi hjá austfirsku liðunum
Ekkert austfirsku liðanna fimm náði stigi í Íslandsmótinu í knattspyrnu um síðustu helgi. Huginn og Fjarðabyggð fengu á sig sigurmörk í uppbótartíma.
Huginn sótti Magna heim í toppslag annarrar deildar á Grenivík. Stefán Ómar Magnússno og Gonzalo Leon komu Huginn í 0-2 strax á fyrstu tíu mínútum leiksins. Magnamenn minnkuðu muninn um miðjan hálfleikinn og jöfnuðu á 73. mínútu en strax mínútu síðar kom Kifah Mourad Huginn yfir á ný.
Magnaliðið, sem er efst í deildinni, var ekki þar með að baki dottið heldur jafnaði þremur mínútum fyrir leikslok og skoraði sigurmarkið á fimmtu mínútu uppbótartíma. Huginn er eftir sem áður í þriðja sæti deildarinnar. Eftir sex leikja sigurgöngu hefur hægst á Huginn og liðið ekki unnið þrjá leiki í röð.
Eftir þrjá sigurleiki í röð tapaði Fjarðabyggð heima fyrir Víði 2-3. Víðir var 0-2 yfir í hálfleik en þeir Milos Vasiljevic og Hafsteinn Gísli Valdimarsson jöfnuðu fyrir Fjarðabyggð. Jöfnunarmark Hafsteins Gísla kom tveimur mínútum fyrir leikslok. Gestirnir skoruðu hins vegar sigurmarkið á þriðju mínútu uppbótartíma og í kjölfarið fékk Stefán Þór Eysteinsson, fyrirliði Fjarðabyggðar, tvö gul spjöld og þar með rautt.
Höttur sótti Völsung heim á Mærudögum, bæjarhátíð Húsvíkinga. Liðið byrjaði vel og var 2-0 yfir í hálfleik með mörkum Steinars Arons Magnússonar og Jóhanns Vals Clausen. Höttur var hins vegar kafsigldur með fjórum mörkum Völsunga í seinni hálfleik.
Einherji tapaði fyrir Ægi 3-1 í þriðju deildinni. Sverrir Hrafn Friðriksson skoraði eina mark Einherja tíu mínútum fyrir leikslok. Eftir góða byrjun hefur Einherji leikið fjóra leiki í röð án sigurs. Síðasti sigurleikurinn var gegn Fjallabyggð 30. júní.
Leiknir Fáskrúðsfirði er áfram í neðsta sæti fyrstu deildar en liðið tapaði 1-0 fyrir HK í Kópavogi. Liðið tekur á móti Leikni Reykjavík á morgun í leik sem hefst klukkan 17:45.
Höttur og Huginn mætast í Austfjarðaslag á Fellavelli klukkan 19:15 og á sama tíma heimsækir Fjarðabyggð Njarðvík. Um leið hefst leikur Einherja og Völsungs í annarri deild kvenna.