Knattspyrna: Fengur að fá Eggert Gunnþór til að byggja upp KFA
Eggert Gunnþór Jónsson, fyrrum atvinnumaður í knattspyrnu, hefur samið við Knattspyrnufélag Austfjarða (KFA) um að verða spilandi aðstoðarþjálfari þar í sumar en hann er uppalinn á Eskifirði. Formaður félagsins segir stefnuna á að gera betur í fyrra þegar litlu munaði að félagið færi upp í fyrstu deild.Eggert Gunnþór spilað sína fyrstu meistaraflokksleiki með Fjarðabyggð sumarið 2004 en aðeins ári síðar var hann farinn til Hearts í Skotlandi. Hann spilaði síðar með Wolves, Charlton og Fleetwood í Englandi, Belenense í Portúgal, Vestsjælland og Sönderjyske í Danmörku áður en hann samdi við FH sumarið 2020. Hann á einnig að baki 21 A-landsleik.
Í byrjun þessa mánaðar var tilkynnt að hann hefði samið við KFA til tveggja ára og um síðustu helgi spilaði hann sinn fyrsta leik með liðinu, í 1-3 sigri á Hetti/Huginn í Lengjubikarnum.
„Koma hans gerir mikið fyrir fótboltann hér því hugur hans stendur til að hjálpa okkur við að byggja upp félagið. Við funduðum áður en hann skrifaði undir þar sem hann fór yfir sína sýn og hvernig hann hefði alltaf langað til að enda ferilinn heima, hvar sem hann var staddur.
Það er góður tímapunktur nú til að koma austur því það eru mörg verkefni sem tengjast sameiningunni,“ segir Hilmar Jökull Stefánsson, sem í október tók við formennsku félagsins. KFA varð til vorið 2022 við sameiningu meistaraflokka Leiknis Fáskrúðsfirði og Fjarðabyggðar. Frá upphafi hefur verið stefnt að nánari samruna og er unnið að þeim verkefnum núna.
Karlalið félagsins hefur spilað í annarri deild og segir Hilmar Jökull að Eggert Gunnþór verði því mikill liðsstyrkur. „Það þarf vart að segja það því hann gat farið til liða í efstu deild. Vonandi sýnir hann styrk sinn í sumar.
En fyrir honum er þetta ekki bara að spila fótbolta heldur að gefa af sér inni í klefa og á æfingum Hann kemur með reynslu sem okkar yngri leikmenn þekkja ekki.“
Leikmannahópurinn að taka á sig mynd
Leikmannahópur KFA fyrir sumarið hefur verið að taka á sig mynd síðustu vikur. Tómas Atli Björgvinsson og Þór Sigurjónsson, sem báðir eru uppaldir í Fjarðabyggð, koma að láni frá FH. Fyrirliðinn Vice Kendes er hættur og nokkuð ljóst að Nikola Stojavljevic, William Suárez og Inigo Albizuri verða ekki áfram með KFA. Af erlendu leikmönnunum frá síðasta sumri má nefna að Danilo Milenkovic og Zonimir Blaic framlengdu samninga sína. Samningur Esteban Selpa var framlengdur en hann verður ekki með í sumar eftir að hafa slitið krossband í hné.
KFA hefur að undanförnu fengið til sín þrjá erlenda leikmenn sem hafa spilað á Íslandi. Miðjumaðurinn Matheus Gotler færir sig um set frá Hetti/Huginn, framherjinn Julio Cesar Fernandes kemur frá Reyni Sandgerði og Khalok frá Víking Ólafsvík. Þá samdi KFA við ítalska markvörðinn Mattia Guarnieri. „Við erum með marga mjög góða heimamenn og byggjum í kringum þá með erlendum leikmönnum,“ segir Hilmar Jökull.
Skipt út í sóknarlínunni
Sem fyrr segir hófst undirbúningstímabil KFA um síðustu helgi með 1-3 sigri á Hetti/Huginn í deildarbikarnum um síðustu helgi. Tómas Atli Björgvinsson skoraði tvö mörk fyrir KFA auk þess sem Sæbjörn Guðlaugsson varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark en Valdimar Brimir Hilmarsson skoraði mark Hattar/Hugins úr vítaspyrnu.
Liðin voru skipuð heimamönnum eða leikmönnum sem búa á Austurlandi árið um kring. Hilmar Jökull segir að flestir erlendu leikmannanna sem verði með í sumar komi til móts við liðið í æfingaferð sem farin verður til Spánar í lok mars.
Liðið endaði í þriðja sæti annarrar deildar í fyrra, varð undir í baráttunni við ÍR um að fara upp um deild. Hilmar Jökull segir markmiðið að fara lengra í ár. „Það skildu fimm mörk á milli og eina stefnan í ár er að gera betur. Við byggjum ofan á sterka vörn og miðju og höfum skipt út í sóknarlínunni.“
Aðspurður um hvort frekari breytingar séu áformaðar á leikmannahópnum fyrir sumarið svarar Hilmar Jökull: „Leikmannahópur er eins og fljótandi lífverur. Hann er ekki fastur en við erum ekki að leita að neinu núna og vinnum innan okkar fjárhagsáætlunar.“
Lengjubikarinn heldur áfram um helgina. KFA leikur gegn Magna og Höttur/Huginn gegn Fjallabyggð. Báðir leikirnir eru í Boganum á Akureyri á sunnudag. FHL hefur leik í Lengjubikar kvenna þegar liðið tekur á móti ÍA í Fjarðabyggðarhöllinni á morgun.
Úr leik KFA gegn Sindra í lok síðasta sumars. Mynd: GG