Knattspyrna: FHL byrjaði á sigri á KR - Myndir

Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir vann KR 2-1 í fyrstu umferð Lengjudeildar kvenna í knattspyrnu en liðin mættust í Fjarðabyggðarhöllinni. Þjálfari FHL segir aðalatriði sumarsins að halda áfram öruggu sæti í deildinni og halda áfram að byggja upp unga leikmenn.

Aðeins var liðin mínúta af leiknum þegar Björg Gunnlaugsdóttir komst inn frá hægri og kom FHL yfir. Sofia Lewis skoraði síðan annað mark í uppbótartíma fyrri hálfleiks og staðan því vænleg í hálfleik.

Austfjarðaliðið hélt síðan forustunni og fékk ágæt færi þótt það væri KR sem minnkaði muninn strax á annarri mínútu seinni hálfleiks.

„Frammistaða liðsins var þokkaleg, dálítið flöt. Við náðum að nýta okkar styrkleika þótt við værum ekki jafn góðar og við hefðum getað verið. Það skiptir máli að vinna þótt leikurinn sé ekki sá besti,“ sagði Björgvin Karl Gunnarsson, þjálfari FHL eftir leikinn.

KR féll úr úrvalsdeildinni í fyrra. Vesturbæjarstórveldinu er reyndar spáð falli úr deildinni en það breytir því ekki að sigur á KR telst til tíðinda fyrir austfirskt lið. „Auðvitað er móralskt gott að vinna KR þótt liðinu sé ekki spáð góðu gengi. Mér fannst þær þó betri en af er látið,“ segir Björgvin Karl.

Fimm nýir leikmenn


Talsverðar breytingar hafa orðið á liði FHL síðan í fyrra, þær helstar að allir erlendu leikmennirnir, tvær frá Bandaríkjunum, tvær frá Spáni og ein frá Kanada, eru allar nýjar en þær sem spiluðu með liðinu í fyrra eru farnar.

„Við erum með öðruvísi erlenda leikmenn en við vorum með í fyrra. Við tókum stóran framherja sem við getum spilað upp á til að halda boltanum og hávaxnari markvörð sem grípur betur inn í háa bolta sem koma að markinu, svo sem fyrirgjafir. Það getur skapað okkur möguleika á að sækja hratt. Með Íslandsmeistara í spretthlaupi (Björgu Gunnlaugsdóttur) á hægri kanti og aðra fljóta á vinstri kanti (Sofiu Lewis) þá kemur það sér vel.

Þótt íslenski kjarninn sé að mestu sá sami og í fyrra þá eru yngri leikmenn að koma inn. Katrín Edda Jónsdóttir spilaði alla leikina á undirbúningstímabilinu og Björg Gunnlaugsdóttir hefur einnig verið mikið með. Síðan höfum við nokkrar stelpur fæddar árið 2006 sem eru að koma inn í hópinn. Ég sé fyrir mér að hægt sé að byggja liðið í kringum þær á næstu árum.“

Lokað var fyrir félagaskipti leikmanna áður en tímabilið er hófst en fyrri ár hefur verið möguleiki á að bæta við hópinn eftir að mót er hafið. „Við reyndum að fá inn einn leikmann í viðbót. Við vildum varnarmann en lentum í meiðslum á miðjunni og vorum að skoða að fá leikmann sem gæti leyst báðar stöður því hópurinn er ekki stór. Það gekk ekki eftir.“

Markmiðið áfram að halda sér í deildinni


Þótt liðinu sé spáð um miðja deild eftir að hafa verið í baráttu fram eftir síðasta sumri um að fara upp í úrvalsdeild segir Björgvin Karl að fyrsta markmiðið sé að tryggja liðið áfram í sessi í deildinni en þar er það á sínu öðru ári.

„Þegar opnað var fyrir leikmannaskipti um mitt sumar í fyrra hefðum við getað bætt við okkur leikmönnum til að reyna að fara upp. Þess í stað leyfðum við spænskum leikmönnum sem við höfðum að fara því þeim buðust góðir samningar heima fyrir.

Við vildum frekar spila yngri leikmönnum til að búa til stöðugra lið til framtíðar. Að fara beint upp í Bestu deildina hefði verið of stórt stökk og kostað miklar fjárfestingar í leikmönnum. Þótt okkur sé spáð 5. sætinu þá verð ég sáttur ef við verðum áfram í deildinni. Við erum alltaf bjartsýn og reynum að finna leiðir til að ná sem mestu út úr liðinu.“

Einherji tapaði fyrir ÍH í fyrsta leik sínum í annarri deild í gær. Oddný Karólína Hafsteinsdóttir skoraði mark Einherja á 70. mínútu en Hafnafjarðarliðið var þá komið í 3-0.

Einherji á frí um næstu helgi en FHL tekur á móti Völsungi í bikarkeppninni á sunnudag.

Myndir: Unnar Erlingsson

FHL KR Lidsmynd Web
IMG 0072 Web
IMG 0076 Web
IMG 9005 Web
IMG 9032 Web
IMG 9044 Web
IMG 9048 Web
IMG 9068 Web
IMG 9097 Web
IMG 9113 Web
IMG 9144 Web
IMG 9210 Web
IMG 9227 Web
IMG 9304 Web
IMG 9321 Web
IMG 9371 Web
IMG 9389 Web
IMG 9465 Web
IMG 9472 Web
IMG 9504 Web
IMG 9519 Web
IMG 9606 Web
IMG 9635 Web
IMG 9641 Web
IMG 9650 Web
IMG 9727 Web
IMG 9740 Web
IMG 9817 Web
IMG 9995 Web

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar