Knattspyrna: FHL sótti stig á Selfoss

Lið FHL í Lengjudeild kvenna í knattspyrnu náði jafntefli gegn Selfossi í gær í fyrstu umferð Íslandsmótsins. KFA vann Þrótt Vogum í fyrstu umferð annarrar deildar karla meðan Höttur/Huginn tapaði illa fyrir Haukum.

Úrslitin á Selfossi teljast FHL hagstæð þar sem heimaliðið spilaði í úrvalsdeild síðasta sumar. FHL komst yfir strax á fimmtu mínútu þegar Björg Gunnlaugsdóttir skoraði en Selfoss jafnaði mínútu síðar. Deja Sandoval kom FHL aftur yfir á 16. mínútu en Selfoss jafnaði aftur snemma í seinni hálfleik.

KFA fór einnig vel af stað með 2-0 sigri á Þrótti Vogum í Fjarðabyggðarhöllinni á laugardag. Marteinn Már Sverrisson kom KFA yfir eftir rúman hálftíma. Abdelkadi Khalok El Bouzarri, sem kom frá Víkingi Ólafsvík í vetur, skoraði annað markið í uppbótartíma en hann kom inn á sem varamaður.

Höttur/Huginn tapaði illa, 4-0, fyrir Haukum í Hafnarfirði. Heimamenn skoruðu þrjú mörk í fyrri hálfleik og það síðasta í uppbótartíma.

Um næstu helgi bætast tvö austfirsk lið í hópinn í Íslandsmótinu, Spyrnir í fimmtu deild karla og Einherji í annarri deild kvenna.

Mynd: Unnar Erlingsson


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.