Knattspyrna: Fjarðabyggð sloppin við fall, Leiknir fallinn
Fjarðabyggð heldur sæti sínu í annarri deild karla eftir 1-1 jafntefli við Hött sem áfram er í bullandi fallhættu. Leiknir er fallinn úr fyrstu deildinni. Fjögur rauð spjöld fóru á loft á Vopnafirði.Fjarðabyggð var fyrri til að skora. Um miðjan fyrri hálfleik fékk Enrique Rivas boltann, einn og óvaldaður, við vítateigslínuna hægra megin. Skot hans var ekki það besta en smaug undir Aleksandar Marinkovic í marki Hattar.
Fjarðabyggð var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og hefði getað klárað leikinn þá. Hattarmenn voru taugastrekktir, mikið var um feilsendingar og miðað við lið í fallhættu var baráttan hreinlega ekki til staðar.
Fram á við var stuðningurinn enginn, eins og sást til dæmis þegar Ignacio Martinez fékk boltann á miðjum eigin vallarhelmingi. Hattarliðið átti fínan möguleika á skyndisókn upp hægri kantinn en þar var enginn.
Ekki var baráttan uppi í brekku þrátt fyrir heimavöllinn. Nokkuð var þar af hvítum treyjum en í þeim heyrðist ekkert og öll þeirra köll snarlega yfirgnæfð af fimm manna trommusveit úr Fjarðabyggð.
Á leikvellinum réðu gestirnir líka ferðinni og fór boltinn í flest skiptin í gegnum Rivas sem stjórnaði ferðinni á miðjunni. Það var því gegn gangi leiksins sem Höttur jafnaði þremur mínútum fyrir leikhlé. Þjálfarinn Nenad Zivankovic vann boltann með góðri pressu. Af honum hrökk boltinn til Martinez sem gerði vel með að ná föstu skoti í hornið fjær úr þröngu færi.
Pressa Hattar en fá færi
Höttur réði ferðinni fyrsta kortérið í seinni hálfleik og munaði þar miklu um innkomu Guðjóns Hrafnkelssonar af varamannabekknum. Hattarmönnum gekk þó illa að skapa sér opin tækifæri.
Fjarðabyggð átti besta færi hálfleiks þegar þegar Zoran Vujovic skallaði í stöng af markteig eftir góða fyrirgjöf frá hægri.
Höttur sótti nokkuð síðustu mínúturnar enda hefði sigur haldið liðinu í annarri deild. Garðar Logi Ólafsson fékk besta færið þegar hann komst inn fyrir vörn Fjarðabyggðar hægra megin eftir frábæra þversendingu miðvarðarins Petar Mudresa.
Fjarðabyggð dugði hins vegar jafnteflið, að því gefnu að KV tapaði fyrir Njarðvík. Þegar þær fréttir bárust að Njarðvík væri komið með öruggt forskot í þeim leik var sú skipun gefin út að taka enga áhættu heldur sigla einu stigi í örugga höfn, sem og var gert.
Höttur er með tveggja stiga forskot á KV fyrir lokaumferðina og tvö mörk. Höttur þarf vestur á Ísafjörð og heimsækir þar Vestra meðan KV tekur á móti Aftureldingu sem hefur átt nokkuð brokkgegnt sumar.
Markaleikur á Höfn
Huginn heimsótti Sindra, sem þegar var fallinn, í miklum markaleik. Blazo Lalevic kom Huginn yfir á 17. mínútu úr víti en heimamenn jöfnuðu eftir hálftíma. Stefán Ómar Magnússon kom Huginn yfir fjórum mínútum síðar og þannig var í hálfleik.
Eftir átta mínútna leik í seinni hálfleik jöfnuðu Hornfirðingar aftur og komust yfir á 64. mínútu. Gonzalo Leon jafnaði fyrir Huginn þegar kortér var eftir og Daniel Moreno skoraði sigurmarkið á lokamínútu venjulegs leiktíma.
Ljóst er að Njarðvík og Magni fara upp úr annarri deildinni. Huginn er í þriðja sæti fyrir lokaumferðina, jafn Víði Garð að stigum. Þremur stigum á eftir eru Afturelding og Tindastóll. Huginn tekur á móti Tindastóli í lokaumferðinni.
Leiknir féll úr fyrstu deild karla eftir 2-0 tap fyrir ÍR. Vonarneisti kviknaði viku fyrr eftir stórsigur á Haukum en hann var slökktur aftur. Leiknir er einu stigi meira en Grótta fyrir lokaumferðina en bæði liðin eru fallin.
Fjögur rauð í leikslok
Einherji lauk keppnistímabilinu með 1-3 tapi gegn KFG á Vopnafirði um helgina. Aleksandar Kirilov skoraði mark Einherja á 24. mínútu en Garðbæingar þrjú í þeim seinni, það síðasta í uppbótartíma. Í kringum það mark sauð hins vegar upp úr.
Í kringum það þriðja sauð hins vegar upp úr. Einherjamenn töldu að einn leikmaður Garðbæingar hefði slegið leikmann Einherja viljandi í andlitið. Það atvik fór framhjá dómaranum og eins þegar sá leikmaður reyndi að hindra innkast en fyrir mótmæli sín fékk Dilyan Kolev, leikmaður Einherja sitt annað gula spjald.
Garðbæingar unnu boltann fljótt aftur þegar leikur hófst að nýju og skoruðu mark. Einherjamenn voru ósáttir við aðdraganda marksins og tóku áhorfendur að sér að reka ósátta leikmenn frá aðstoðardómara.
Markaskorarinn reif sig úr treyju sinni og fékk fyrir það gult spjald. Undir slíkum kringumstæðum þurfa menn leyfi dómara til að koma aftur inn á völlinn en leikmaðurinn beið ekki eftir því. Fyrir það fékk hann sitt annað gula spjald á nokkrum sekúndum og þar með rautt.
Liðsfélagi hans, sem skoraði fyrsta markið, sagði skoðun sína á spjaldinu við dómarann og fékk að launum sitt annað gula spjald.
Eftir að flautað var af fékk Víglundur Páll Einarsson, þjálfari Einherja, rauða spjaldið fyrir að samskipti sín við leikmann KFG sem veitti leikmanni Einherja höfuðhöggið. Sjá má umræddar lokamínútur í spilaranum hér að neðan.
Víglundur hættur
Fyrir leikinn hafði Víglundur gefið það út að hann ætlaði bæði að hætta að spila með Einherja og þjálfa. Víglundur á að baki 101 leik með Einherja en hann spilaði sinn fyrsta leik í meistaraflokki árið 1999. Síðan hefur hann spilað með Fjarðabyggð, Hetti, Þór Akureyri og Langevåg í Noregi.
Í tilkynningu frá Víglundi segir að hann haldi ekki lengur út átökin líkamlega og hann vilji einbeita sér að öðrum verkefnum utan vallar. Stjórn Einherja færði Víglundi blómvönd fyrir leikinn í þakklætisskyni fyrir vel unnin störf.