Knattspyrna: Fjórði sigur Hugins í röð

Huginn er farinn að blanda sér í toppbaráttuna í annarri deild karla en liðið vann sinn fjórða sigur í röð um helgina. Höttur hefur hins vegar sogast niður í fallbaráttuna með Fjarðabyggð.


Gonzalo Leon og Teo Kardrum skoruðu tvö mörk hvor og Blazo Lalevic eitt úr víti þegar Huginn burstaði Fjarðabyggð 5-0 síðasta fimmtudagskvöld. Sigurinn var sá fjórði í röð hjá Huginn og komst liðið með honum upp í þriðja sætið.

Fjarðabyggð tapaði á móti í þriðja sinn í sumar með fimm marka mun og er næst neðst í deildinni með sjö stig, fjórum minna en Höttur sem er í næsta sæti fyrir ofan.

Höttur tapaði 5-3 fyrir toppliði Magna á Grenivík á föstudagskvöld. Ignacio Martinez jafnaði tvisvar fyrir Hött í fyrri hálfleik en heimamenn náðu yfirhöndinni eftir að Marteinn Gauti Kárason var rekinn út af eftir að hafa fengið sitt annað gula spjald eftir tíu mínútna leik í seinni hálfleik. Brynjar Árnason minnkaði muninn níu mínútum fyrir leikslok úr víti.

Heil umferð verður leikin í deildinni á morgun en Fjarðabyggð tekur þá á móti Hetti í Austfjarðaslag. Huginn tekur á móti botnliði Sindra á Fellavelli. Báðir leikirnir hefjast klukkan 19:15.

Í fyrstu deild karla tapaði Leiknir 5-0 fyrir Haukum á útivelli. Ekki bætti úr skák að Kristófer Páll Viðarsson fór meiddur af velli um miðjan fyrri hálfleik.

Einherji komst á sigurbraut á ný eftir þrjá leiki án sigurs þegar liðið lagði Fjallabyggð 0-1 á Ólafsfirði. Todor Hristov skoraði markið úr vítaspyrnu á annarri mínútu uppbótartíma.

Upp úr sauð tveimur mínútum fyrir lok venjulegs leiktíma þjálfari Fjallabyggðar, leikmaður liðsins og Gunnlaugur Baldursson, liðsstjóri Einherja, fengu allir rauð spjöld.

Kvennalið Fjarðabyggðar/Leiknis/Hattar er einnig á sigurbraut, liðið vann Fjölni 5-2 á heimavelli og var það annar sigur liðsins í röð. Fjölnisstelpur komust yfir strax á fjórðu mínútu en Katrín Björg Pálsdóttir jafnaði sjö mínútum síðar.

Aftur komust Fjölnisstelpur yfir eftir hálftíma leik með marki úr víti. Margriet Samson kom Austfjarðaliðinu yfir með tveimur mörkum áður en Sasithorn Phuangkawe og Elísabet Eir Hjálmarsdóttir innsigluðu sigurinn.

Fjölnir heimsótti einnig Einherja og vann þar 1-2. Viktória Szeles skoraði mark Vopnafjarðarliðsins.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.