Knattspyrna: Freyja Karín áfram í lokakeppni EM með U19

Freyja Karín Þorvarðardóttir keppti á dögunum með U19 liði kvenna í knattspyrnu í undankeppni EM. Liðið tryggði sér sæti á EM í Belgíu 18.-30. júlí. Freyja Karín segir það mikinn heiður að hafa verið valin í hópinn og frábært að ná markmiðinu að komast á EM. 

U19 lið kvenna í knattspyrnu keppti á dögunum í milliriðli EM í Danmörku. Þær spiluðu þrjá leiki, gegn Danmörku, Svíþjóð og Úkraínu. 


Fyrsti leikur liðsins var gegn Danmörku sem lauk með 0-1 sigri Íslands. Annar leikur liðsins var gegn Svíþjóð sem lauk með 1-2 sigri Íslands. Að lokum mættu stelpurnar liði Úkraínu í leik sem endaði í jafntefli 2-2. Freyja Karín var í byrjunarliði í leiknum á móti Úkraínu. „Þetta voru mjög krefjandi leikir og gaman að fá tækifæri að keppa á móti sterkum liðum Svíþjóðar og Danmörku," segir Freyja Karín. 

Freyja Karín segir frábæra liðsheild einkenna liðið og að markmiðið hafi alltaf verið að komast á EM með þessum hópi. „Markmiðið okkar var alltaf að komast á EM og hálfgerður draumur að komast áfram, augnablikið sem við fengum fréttirnar var magnað,“ segir Freyja Karín. 

Freyja Karín varði páskafríinu í Danmörku að spila fótbolta og segir það mikil forréttindi að vera valin í U19 hópinn og fá að keppa fyrir hönd Íslands. „Það var algjörlega þess virði að eyða páskunum með þessum frábæra hóp og mikil forréttindi að vera valin í þennan 20 manna hóp og fá að keppa fyrir hönd Íslands,“ bætir Freyja Karín við. 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar