Knattspyrna: Fyrsti sigur Hattar/Hugins í sumar
Höttur/Huginn vann sinn fyrsta leik í annarri deild karla í sumar meðan KFA lék sinn fjórða leik án taps. FHL féll úr leik gegn úrvalsdeildarliði FH í bikarkeppni kvenna og Einherji vann sinn annan leik í röð í annarri deild kvenna.Aðra vikuna í röð var leik Hattar/Hugins frestað þar sem ekki var fært með flugi milli landshluta á laugardegi. Þess í stað tók liðið á móti Haukum á Fellavelli á sunnudag.
Alberto Lopez kom Hetti/Huginn yfir strax á annarri mínútu en gestirnir jöfnuðu á 19. mínútu. Þá tók við góður kafli heimaliðsins sem byrjaði á sjálfsmarki á 24. mínútu áður en Kristján Jakob Ásgrímsson skoraði það þriðja á 37. mínútu. Tíu mínútur voru liðnar af seinni hálfleik þegar Almar Daði Jónsson skoraði sitt fyrsta mark í Íslandsmóti í fimm ár. Haukar minnkuðu muninn síðar í 4-2 en komust ekki nær.
KFA spilaði gegn Dalvík/Reyni á föstudag. Norðlendingar komust yfir á 28. mínútu en Marteinn Már Sverrisson jafnaði fjórum mínútum fyrir leikhlé. Povilas Krasnovskis kom KFA yfir á 70. mínútu. Dalvík/Reynir jafnaði úr vítaspyrnu á lokamínútu venjulegs leiktíma og Mykolas Krasnovskis fékk sitt annað gula spjald. Í uppbótartíma fékk Einar Andri Bergmasson úr liðsstjórn KFA rautt.
KFA er í þriðja sæti deildarinnar með 8 stig úr fjórum leikjum en Höttur/Huginn í því áttuna með fjögur stig. Liðin mætast á föstudagskvöld.
FHL féll úr leik í 16 liða úrslitum bikarkeppni kvenna gegn úrvalsdeildarliði FH en liðin mættust í Fjarðabyggðarhöllinni í gær. Mörk FH komu rétt sitt hvoru megin við leikhlé.
Einherji vann Álftanes á útivelli 0-2. Markalaust var í hálfleik en Borghildur Arnarsdóttir kom Einherja yfir 0-1 eftir um klukkutímaleik. Claudia Maria Daga Merino fékk sitt seinna gula spjald fimm mínútum síðar en það breytti því ekki að Violeta Mitul skoraði annað mark Vopnafjarðarliðsins á 75. mínútu. Liðið er í fjórða sæti annarrar deildar með níu stig úr fimm leikjum.