Knattspyrna: Hefðum þurft að tala meira saman inni á vellinum
Kvennalið Einherja náði sínum fyrsta sigri í sumar þegar liðið vann Hvíta riddarann á sunnudag. Fyrirliðinn hefur trú á að bjartari tíð sé framundan hjá liðinu. Huginn tekur fullan þátt í toppbaráttu 2. deildar karla en Leiknir tapaði mikilvægum leik í fallbaráttunni í fyrstu deild.
Það var Thelma Guðný Ragnarsdóttir sem skoraði hið mikilvæga mark Einherja sem vann Hvíta riddarann 0-1 á sunnudag. Sigurmarkið kom skömmu fyrir leikhlé.
Fyrir leikinn hafði Einherji aðeins náð einu stigi úr fyrstu átta leikjum sínum, jafntefli í fyrstu umferð gegn Fjarðabyggð/Hetti/Leikni. Á laugardag hafði liðið tapað gegn Aftureldingu/Fram 3-0.
„Við höfum æft vel í sumar en það hefur vantað að við töluðum meira saman inni á vellinum. Þetta var fyrsti leikurinn þar sem við náðum því,“ segir Þorbjörg Jóna Garðarsdóttir um leikinn á sunnudag.
Hún telur Einherja hafa verðskuldað stærri sigur. „Þær voru þreyttar og við nýttum okkur það. Við hefðum átt að skora fleiri mörk, við fengum færi til þess.“
Einherji er búinn með níu leiki af fjórtán í deildinni og leikur næsta leik á sunnudag þegar Hvíti riddarinn endurgeldur heimsókn helgarinnar. Þorbjörg hefur trú á að seinni helmingur tímabilsins verði betri. „Við erum hættar að tapa. Núna byrjum við að vinna.“
Von er á að Jovana Milinkovic, sem æft hefur með Einherja síðustu vikur, verði þá komin með leikheimild en opnað verður fyrir félagaskipti á ný daginn fyrir leik, 15. apríl. „Það verður gott að fá hana á miðjuna,“ segir Þorbjörg.
Önnur úrslit helgarinnar
Leiknir tapaði mikilvægum leik gegn ÍR um helgina 0-2 en liðin mættust í Fjarðabyggðarhöllinni. Með sigri hefði Leiknir haft sætaskipti við Breiðholtsliðið og komist upp úr fallsæti. Leiknir heimsækir Þór á Akureyri í kvöld.
Huginn er á siglingu í annarri deild karla og hefur þar unnið sex leiki í röð. Á laugardag vann liðið Tindastól 0-1. Blazo Lalevic skoraði markið eftir rúmlega hálftíma leik. Um miðja síðustu viku burstaði liðið Sindra 5-1 á heimavelli en staðan var 4-0 í hálfeik. Huginn er í þriðja sæti, stigi á eftir toppliðunum Magna og Njarðvík.
Fjarðabyggð náði mikilvægum með að vinna heillum horfið lið Sindra sem situr sem fastast í neðsta sæti 1-2. Georgi Karaneychev og Zoran Vujovic skoruðu mörkin í fyrri hálfleik.
Síðasta þriðjudag tapaði Fjarðabyggð hins vegar heima í Austfjarðaslagnum gegn Hetti 1-2. Sigurinn lyfti Hetti upp úr mestu fallbaráttunni í bili en fjögur stigum munar á liðunum tveimur. Höttur tekur á móti Vestra annað kvöld.
Karlalið Einherja gerði markalaust jafntefli við KFG í Garðabæ í þriðju deild karla um helgina. Einherji er í fjórða sæti með 17 stig þegar deildin er hálfnuð. Aðeins munar þremur stigum á liðunum í 2. sæti, sem veitir þátttökurétt í 2. deild að ári, og sjötta sætinu.