Knattspyrna: Höttur/Huginn áfram í bikarnum

Höttur/Huginn tryggði sér í gær sæti í 32ja liða úrslitum bikarkeppni karla í knattspyrnu með 3-2 sigri á Einherja á Fellavelli.

Vopnfirðingar komust yfir á 13. mínútu með marki Ruben Menéndez og þannig var staðan í hálfleik.

Eftir leikhlé sýndi Höttur/Huginn, sem spilar í sumar tveimur deildum ofar, klærnar. Spefan Spasic jafnaði á 63. mínútu og Brynjar Þorri Magnússon kom liðinu yfir á 65. mínútu áður en Matheus Bettio setti þriðja markið tíu mínútum síðar. Dilyan Kolev skoraði annað mark Einherja í uppbótartíma.

Knattspyrnufélag Austfjarða hefur leik í keppninni þegar liðið mætir Sindra á Hornafirði klukkan 14:00 á morgun.

Eftir helgi verður dregið í 32ja liða úrslitunum, sem leikin verða í lok maí. Þar bætast úrvalsdeildarliðin í hópinn.

Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir lýkur keppni í B-deild Lengjubikars kvenna þegar liðið mætir Augnabliki í Fjarðabyggðarhöllinni klukkan 14:00 á morgun í frestuðum leik.

Í gær tapaði liðið fyrir Haukum á Ásvöllum 2-1. Heide Giles kom austanliðinu yfir á 50. mínútu. Með sigrinum náðu Haukar sjöunda sæti deildarinnar af Fjarðabyggð/Hetti/Leikni.

Af öðrum íþróttum helgarinnar ber hæst að körfuknattleikslið Hattar getur tryggt sér sæti í úrvalsdeild karla á næsta tímabili með sigri á Álftanesi í kvöld en liðin mætast á Egilsstöðum. Leiknum hefur verið seinkað um klukkustund og hefst klukkan 20:15.

Þá verður lokaumferð Íslandsmeistaramótsins í snjókrossi ekin á Fjarðarheiði á morgun. Byrjað verður að keyra klukkan 12:00.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar