Knattspyrna: Höttur/Huginn úr leik eftir framlengingu
Knattspyrnufélag Austfjarða tryggði sig örugglega áfram í bikarkeppni karla í knattspyrnu með stórsigri á Spyrni á skírdag. Höttur/Huginn féll úr leik eftir framlengdan leik við Sindra.KFA var komið í 5-0 gegn Spyrni eftir 33 mínútur. Heiðar Snær Ragnarsson skoraði strax á þriðju mínútu en svo skoruðu þeir Marteinn Már Sverrisson og Danilo Milenkovic tvö mörk hvor. Strax eftir seinna mark Danilos minnkaði Brynjar Árnason muninn út vítaspyrnu.
Í seinni hálfleik fullkomnaði Marteinn Már þrennuna áður en William Suarez skoraði sjöunda mark Spyrnis og lokatölurnar 7-1.
Höttur/Huginn komst þrisvar yfir í leik sínum gegn Sindra á laugardag en glopraði forustunni alltaf niður. Eiður Orri Ragnarsson skoraði fyrst á 23. mínútu en Ivan Paponja jafnaði fjórum mínútum síðar. Aftur kom Björgvin Stefán Pétursson Hetti/Huginn yfir á 42. mínútu en Sindri jafnaði á 54. mínútu, aftur með marki Paponja.
Alberto Lopez kom Hetti/Huginn yfir í þriðja skiptið á 81. mínútu. Sú forusta entist í fjórar mínútur, þá jafnaði Kristinn Justiniano Snjólfsson og tryggði Sindra framlengingu.
Þar skoraði Abdul Bangura eina markið á lokamínútu fyrri hluta framlengingar og kom Sindra yfir í eina skiptið í leiknum. Það var jafnframt eina forskotið sem entist. Kristján Jakob Ásgrímsson fékk rauða spjaldið á 119. mínútu vegna tveggja áminninga í seinni hluta framlengingarinnar.
Kvennalið Fjarðabyggðar/Hattar/Leiknis nýtti páskahelgina í æfingaferð til Spánar. Það mætir Víkingi Reykjavík í bikarnum um næstu helgi. Næsta umferð hjá körlunum verður í kringum sumardaginn fyrsta.
Þá má bæta því við að Dagur Ingi Valsson, fyrrum leikmaður Leiknis, skoraði sigurmark Keflavíkur gegn Fylki í uppbótartíma í fyrstu umferð úrvalsdeildar karla í gærkvöldi.