Knattspyrna: Höttur og Fjarðabyggð leita að markvörðum
Austfjarðaliðin Höttur og Fjarðabyggð leita að nýjum markvörðum fyrir seinni hluta Íslandsmótsins í knattspyrnu eftir að hafa misst aðalmarkverði sína í gær. Vika er þar til félagaskiptaglugginn lokar.
Sveinn Sigurður Jóhannesson, sem reynst hefur vel í marki Fjarðabyggðar, fór meiddur af velli um miðjan seinni hálfleik þegar liðið tapaði fyrir Huginn á Seyðisfirði í gærkvöldi.
„Þetta er rifinn lærvöðvi svo hann er frá út tímabilið þannig við þurfum í markmannsleit,“ sagið Víglundur Páll Einarsson, þjálfari Fjarðabyggðar, í samtali við Austurfrétt efir leikinn.
„Þetta er mikill missir því Sveinn hefur verið frábær fyrir okkur auk þess sem hann er yndislegur drengur og mikill karakter. Það eru sex dagar í næsta leik og þá þurfum við að vera komnir með markmann þannig það fer allt á fullt í kvöld.“
Varnarmaðurinn Andri Þór Magnússon fór í markið en Þorvaldur Marteinn Jónsson, sem verið hefur á bekknum í sumar og í markinu á undirbúningstímabilinu, er staddur erlendis.
Höttur leitar einnig að nýjum markverði. Í markinu hefur staðið Sigurður Hrannar Björnsson líkt og í fyrra að láni frá Víkingi. Í vetur hugðist hann spila sem lánsmaður hjá Fram en þegar nýr markvörður kom til félagsins skömmu fyrir mót skipt hann yfir í Hött.
Lánssamningum við Hött hefur verið rift og Sigurður Hrannar fékk leikheimild sem lánsmaður hjá Fram í gær.
Leiknir Fáskrúðsfirði hefur fengið til sín Andres Salas Trenas, 31 árs gamlan spænskan varnarmann sem gjaldgengur er gegn Selfossi á morgun. Hann kemur hingað frá Gíbraltar en hefur nær allan sinn feril spilað á Spáni.
Anton Freyr Ársælsson sem spilað hefur þrjá leiki í sumar með Huginn sem lánsmaður frá Fjölni er farinn aftur í uppeldisfélagið. Huginn leitaði einnig til Gíbraltar og fann þar spænska framherjann Diego Merchan sem skoraði í sínum fyrsta leik með liðinu gegn Selfossi á laugardag.
Karítas Anja Magnadóttir hefur skipt úr Einherja í Hamrana. Karítas var lykilmaður í liði Einherja í fyrra þegar hún skoraði þrjú mörk í tíu leikjum en hefur aðeins spilað tvo leiki í deildinni í sumar.