Knattspyrna: Huginn fékk bestu færin í markalausum leik

Höttur og Huginn gerðu markalaust jafntefli þegar liðin mættust í annarri deild karla í knattspyrnu á Vilhjálmsvelli á föstudagskvöld. Gestirnir frá Seyðisfirði réðu ferðinni í fyrri hálfleik en náðu ekki að nýta færin.


Stærstu tíðindi leiksins eru sennilega þau að Vilhjálmsvöllur hafi þótt leikhæfur í maí, það hefur ekki gerst í áraraðir.

Huginsmenn höfðu yfirhöndina í fyrri hálfleik og snerpa sóknarmann þeirra kom liðinu í vænlega stöðu með að komast á bakvið bakverði Hattar.

Seyðfirðingar fengu besta færi leiksins á 37. mínútu þegar Teo Kardum skaut fyrir af margteig eftir fyrirgjöf frá vinstri. Skömmu síðar fékk Gonzalo Leon gott skotfæri á vítateignum en Petar Mudresa komst fyrir það, líkt og fleiri færi Hugins.

Seinni hálfleikurinn var fremur bragðdaufur, 2-3 hálffæri litu dagsins ljós fyrsta kortérið en síðasti hálftíminn var steingeldur með öllu.

Ekki þar sem við ætluðum að vera

„Þetta var allt í lagi leikur hjá okkur, ekkert frábær en heldur ekkert hrikalega lélegur. Við fengum besta færi leiksins en það hefur verið sagan okkar í sumar að geta ekki klárað færin,“ sagði Brynjar Skúlason, þjálfari Hugins eftir leikinn.

Lið hans hefur gert jafntefli í þremur af fyrstu fjórum leikjum sínum. „Við erum ekki með það af stigum sem við ætluðum okkur að vera með á þessum tímapunkti. Við erum ekki með til að vera með en það eru mjög flott lið í deildinni og hún verður erfið.“

Glatað tækifæri til að komast í toppbaráttu

Jónas Ástþór Hafsteinsson, leikmaður Hattar, sagði liðið hafa misst af tækifæri til að blanda sér af alvöru í toppbaráttuna strax með að leggja ekki granna sína.

„Við lögðum leikinn þannig upp en við mættum yfirspenntir til leiks og létum aðstæður stýra okkur. Það áttu reyndar við um bæði lið, þetta var aldrei alvöru fótbolti heldur stöðubarátta á blautum velli.“

Ekki hjálpaði til að Ignacio Martinez fór út af eftir hálftíma hjá Hetti vegna meiðsla, Jónas eftir klukkutíma og Beki Barkarson var ekki með.

„Við vorum í meiðslum þannig skiptingarnar fóru í annað en við ætluðum og náðum ekki gera eins og við vildum í lokin.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar