Knattspyrna: Huginn og Leiknir í úrslitakeppni þriðju deildar
Huginn og Leiknir verða fulltrúar Austfirðinga í úrslitakeppni þriðju deildar karla í knattspyrnu í ár. Einherjamenn voru ekki langt frá því að krækja sér í sæti í umspili í sæti í nýju þriðju deildinni. Höttur og Fjarðabyggð eru í fallbaráttu í fyrstu og annarri deild karla og kvennaliðin náðu ekki í úrslitakeppni fyrstu deildar. Á ýmsu hefur gengið í austfirsku knattspyrnulífi í sumar.
Mikið er í húfi í ár en á næsta sumri tekur við ný þriðja deild með tíu liðum á landsvísu sem ætti að verða heldur sterkari en sú sem er í dag og verður í raun að fjórðu deild. Tvö lið úr úrslitakeppni þriðju deildarinnar í ár fara reyndar beint upp í aðra deild en hin liðin í úrslitakeppninni komast í nýju deildina.
Markaglaðir Seyðfirðingar
Huginn og Leiknir enduðu á toppi D riðils með 29 stig en Huginn með 10 mörkum betra í markahlutfall. Huginn byrjaði tímabilið sérstaklega vel en fataðist flugið um mitt tímabil. Virtist brotthvarf miðjumannsins Brynjars Árnasonar, sem kallaður heim til Hattar úr láni, hafa haft mikil áhrif á liðið. Seyðfirðingar unnu báða leiki sína í ágúst eftir að hafa tapað óvænt fyrir KH á heimavelli í lok júlí.
Sterk sókn er aðalsmerki Hugins sem skoraði 53 mörk í 14 leikjum í riðlinum eða 3,8 mörk að meðaltali í leik. Til samanburðar má nefna að 2,5 mörk voru skoruð að meðaltali í hverjum leik Evrópukeppninnar í sumar, sem þótti frekar mikið og aðeins efstu tvö liðin í ensku úrvalsdeildinni í fyrra skoruðu meira en tvö mörk að meðaltali í leik.
Leiknismenn lokuðu markinu
Framan af voru Leiknismenn töluvert að baki Huginsmönnum. Þeir styrktu sig hins vegar með fjórum nýjum mönnum fyrir lokaátökin í ágúst. Augnablik úr Kópavogi var lengi á milli Austfjarðaliðanna tveggja. Það breyttist hins vegar í síðustu viku þegar Leiknis vann Blikana 3-0 á Fáskrúðsfirði. Sætið í úrslitakeppninni var síðan gulltryggt með 0-4 sigri á KH á Hlíðarenda á laugardag.
Ólíkt Seyðfirðingum þá byggja Fáskrúðsfirðingar á sterkri vörn. Síðasti tapleikurinn var í byrjun júlí fyrir Einherja á Búðagrund. Eftir það vann liðið alla leikina nema einn, jafntefli við Huginn á Seyðisfirði og hélt hreinu í fimm markinu af síðustu sex leikjunum. Liðið fékk á sig fæst mörk í riðlinum, fimmtán í fjórtán leikjum.
Úrslitakeppnin hefst á laugardag. Leiknir tekur þá móti Víði úr Garði en Huginn heimsækir Ægi í Þorlákshöfn. Seinni leikir liðanna verða á þriðjudaginn í næstu viku.
Drama hjá Einherja
Baráttan var þó jöfn og munaði aðeins stigi á Austfjarðaliðunum tveimur og Augnabliki, sem leikur í fjögurra liða keppni um laust sæti í nýju deildinni. Einherji varð í fjórða sæti með 23 stig. Vopnfirðingar spiluðu í Kópavoginum á föstudagskvöld og töpuðu þar 4-2. Þeir yfirspiluðu síðan Björninn í Grafarvogi á sunnudag og unnu 0-6.
Líkt og Fáskrúðsfirðingar fóru Einherjamenn hægt af stað og sóttu síðan í sig veðrið. Átök urðu þar í júní þegar David Hannah og fjórir af fimm skoskum leikmönnum sem spiluðu með liðinu hurfu á braut í skyndi. Ryan McCann, sem varð eftir, leiddi liðið sem byggði á heimamönnum og stemmingunni í ljónagryfjunni á Vopnafirði.
Hver verður framtíð Einherja?
Vopnfirðingar hafa samt áhyggjur af framtíðinni. Þeir sitja eftir einir í fjórðu deild og ekkert lið í námunda þar sem Sindramenn frá Höfn eru líka á leið upp um deild. Liðin í væntanlegri fjórðu deild eru hins vegar flest í Reykjavík
„KSÍ verður að leita allra leiða til að jafna kostnaðinn, jafna ferðalagið svo sem kostur er. Fyrir okkur s. k. dreifbýlinga hefur áhugann skort frá hendi KSÍ og meðan svo er verður okkur gert að ferðast landið þvert og endilangt til að leika knattspyrnu í 3-4 klukkutíma og halda sömu leið til baka,“ segir í frétt af ferðalögum Einherjaliða um helgina á vef Vopnafjarðarhrepps.
Einherjamenn höfðu samt ríka ástæðu til að fagna um helgina því lið félagsins í þriðja flokki stúlkna varð Íslandsmeistari. Lokakeppnin fór fram í Borgarnesi en þar vann liðið FH, Skallagrím og HK/Víking. Einherji hefur áður unnið Íslandsmeistaratitil í yngri flokkum en þetta er fyrsti stúlknaflokkurinn sem það gerir.
Fjarðabyggð í fallbaráttu
Spurningin er hversu mörg lið að austan verða í nýju þriðju deildinni. Kraftaverk þarf orðið til að bjarga Fjarðabyggð frá falli úr annarri deild. Liðið er í ellefta sæti með tólf stig, sjö stigum frá Gróttu í því tíunda, þegar fjórar umferðar eru eftir og mun lakara markahlutfall. Liðið þarf að vinna þrjá af síðustu fjórum leikjunum á meðan Grótta má helst ekki fá stig til að sleppa við fallið.
Til að bæta gráu ofan á svart viðbeinsbrotnaði miðjumaðurinn Dejan Miljkovic, sem hefur verið einn besti leikmaður Fjarðabyggðar í 4-0 ósigri liðsins fyrir Fjallabyggð um síðustu helgi og verður ekki meira með í sumar.
Þrír leikir töpuðust í uppbótartíma
Deila má um hvort liðið hefur verið óheppið, klaufalegt eða einfaldlega lélegt. Liðið hefur fengið á sig 40 mörk í sumar, rúmlega tvö mörk að meðaltali í leik. Markvörðurinn Amir Mehica hefur misst af nær öllu sumrinu vegna meiðsla og lánsmaðurinn Gunnar Smári Magnússon engan veginn fyllt upp í það skarð. Markahrókurinn Mirnes Smajlovic hefur sömuleiðis verið meiddur stóran hluta sumarsins.
Seint verður skýrt hvernig liðinu tókst að tapa þremur leikjum af fimm í júlí með að fá á sig mark í uppbótartíma. Þar má augljóslega benda á töpuð stig sem hefðu verið dýrmæt nú. Vonin lifir samt enn. Fjarðabyggð tekur á móti Hamri úr Hveragerði á laugardaginn. Hamarsliðið var lengi í fallbaráttunni en styrkti sig með nýjum leikmönnum í lok júlí og er nú átta stigum á undan KFF.
Mánuður án markvarðar Hetti dýrkeyptur
Staða Hattar í fyrstu deild karla er betri þótt lítið megi út af bregða til að liðið falli. Liðið vann glæsilegan 5-2 sigur á Víkingi úr Reykjavík á Vilhjálmsvelli á laugardag í leik þar sem þrjú mörk voru dæmd af Hattarliðinu. Álíka stórsókn mátti ÍR úr Breiðholtinu þola fyrr í mánuðinum enda vann Höttur þann leik 5-1.
Hattarliðið, þá nýtt í deildinni, byrjaði vorið ágætlega. Liðið spilaði varfærnislega og vörnin virkaði vel með Englendinginn Ryan Allsop í markinu. Útkoman var samt gjarnan jafntefli sem fá stig færa í hús. Allsop fór frá liðinu til að reyna fyrir sér á heimaslóðum í byrjun júlí og í kjölfarið fylgdu stórtöp.
Vilhjálmsvöllur gryfja
Arftaki hans, Serbinn Veljko Bajkovic, kom ekki fyrr en eftir verslunarmannahelgi en síðan hefur liðið heldur rétt úr kútnum. Liðið er í tíunda sæti með átján stig, tveimur stigum á undan Leikni Reykjavík og fjórum á undan ÍR. Tindastóll er í níunda sæti með 21 stig og BÍ/Bolungarvík sæti ofar með stigi meira.
Styrkur liðsins er á Vilhjálmsvelli en verr hefur gengið á útivöllunum. Hattarmenn ættu því að vera bjartsýnir, en ekki værukærir, þar sem liðið á eftir að taka á móti bæði Leikni og Tindastóli.
Höttur missti af úrslitakeppninni, Fjarðabyggð/Leiknir á botninum
Í A-riðli fyrstu deildar kvenna gerði Höttur atlögu að sæti í úrslitakeppninni en varð að lokum fjórum stigum frá henni. Liðið vann góðan 0-2 sigur á Þrótti Reykjavík sem þar með missti af efsta sætinu á sunnudag. Höttur var í sérstökum vandræðum með að skora á heimavelli þar sem það gerði þrjú markalaus jafntefli.
Fjarðabyggð/Leiknir byrjaði vel með óvæntum 1-0 sigri á ÍA, sem varð síðan í þriðja sæti, í fyrsta leik. Það sem eftir var sumars náði liðið aðeins einu jafntefli en tapaði hinum leikjunum tólf og varð langneðst í riðlinum.
Nokkrar breytingar urðu á liðinu í sumar og voru til dæmis hvorki Petra Sigurðardóttir né Una Jónsdóttir, sem hafa verið burðarrásir í liðinu lengi, með eftir verslunarmannahelgi.
Óskar dæmdi í bikarúrslitaleik
Besta árangri austfirsks knattspyrnufólks í sumar náði trúlega dómarinn Jóhann Óskar Þórólfsson. Óskar, sem dæmir fyrir Leikni á Fáskrúðsfirði, var um helgina aðstoðardómari í bikarúrslitaleik kvenna á Laugardalsvelli þar sem Stjarnan vann Val.
Gunnar Jarl Jónsson var aðaldómari leiksins og Halldór Breiðfjörð hinn aðstoðardómarinn. Líta má á valið á Óskari í einn af stærstu leikjum ársins á landinu sem mikla viðurkenningu á hans störfum.