Knattspyrna: KFA aftur á sigurbraut með mörkum undir lokin
Knattspyrnufélag Austfjarða vann á ný eftir þrjá leiki án sigurs þegar liðið lagði KFG á laugardag. Höttur/Huginn á enn möguleika að læðast inn í toppbaráttu annarrar deildar karla eftir sigur á Þrótti í Vogum. Einherji tapaði í annarri deild eftir sjö sigurleiki í röð en toppbarátta annarrar deildar kvenna er enn galopin.KFG komst yfir í Fjarðabyggðarhöllinni á 39. mínútu. Marteinn Már Sverrisson jafnaði á 71. mínútu og Esteban Selpa skoraði sigurmarkið á 81. mínútu.
Höttur/Huginn vann á sama tíma Þrótt í Vogum. Matheus Bettio skoraði bæði mörkin, hið fyrra á 32. mínútu en það seinna úr víti á 64. mínútu.
KFA vann þar með á ný eftir þrjá leiki án sigurs, tvö töp og eitt jafntefli. Liðið er í öðru sæti deildarinnar með 35 stig en Dalvík/Reynir er í efsta sætinu með 38 stig. Á eftir fylgja ÍR með 34 stig, Víkingur Ólafsvík með 32 stig, Höttur/Huginn með 30 stig og Þróttur með 29 stig.
Þrjár umferðir eru eftir af mótinu. Miðað við það virðast Dalvík/Reynir, KFA og ÍR berjast um sætin tvö í næstu deild en þær miklu sveiflur sem hafa verið milli umferða þýða að ekki er hægt að útiloka enn liðin sem fylgja þar á eftir.
Átta mörk í fyrsta deildarleiknum á Djúpavogi í 16 ár
Spyrnir lauk keppni í B-riðli fimmtu deildar karla með 4-4 jafntefli gegn Samherjum. Leikið var á Djúpavogi í fyrsta sinn í Íslandsmóti í meistaraflokki síðan árið 2007 en þá sendi Neisti síðast lið til keppni.
Gestirnir úr Eyjafirði voru komnir í 0-3 eftir 20 mínútu en Spyrnir náði stöðunni niður í 2-3 fyrir leikhlé. Finnur Huldar Gunnlaugsson skoraði á 35. mínútu og Hrafn Sigurðsson á þriðju mínútu uppbótartíma. Óliver Árni Ólafsson jafnaði á 80. mínútu, þeirri sömu og fækkaði í liði Samherja þegar einn þeirra hlaut sitt seinna gula spjald.
Þeir komust þó aftur yfir á 82. mínútu áður en Guðþór Hrafn Smárason jafnaði í 4-4 á þriðju mínútu uppbótartíma. Spyrnir endaði í 6. sæti riðilsins með 23 stig.
Réðu ekki við þá markahæstu
Í Lengjudeild kvenna réði FHL ekkert við markahæsta leikmann deildarinnar. Hannah Abraham skoraði öll mörk Gróttu í leik sem endaði 4-2 fyrir Seltjarnarnesliðið. Hanna skoraði tvö mörk á fyrstu tíu mínútunum og það þriðja á 52. mínútu.
Natalie Cooke minnkaði muninn á 62. mínútu en Hannah var aftur á ferðinni á 78. mínútu. Halldóra Birta Sigfúsdóttir skoraði annað mark FHL á 82. mínútu. FHL er í 8. sæti deildarinnar með 17 stig úr 16 leikjum. Liðið á tvo leiki eftir.
Rautt spjald á fyrirliðann vendipunkturinn
Efsta lið annarrar deildar kvenna batt enda á sigurgöngu Einherja. Claudia Maria Daga Merino kom Einherja yfir á 2. mínútu og Viktoria Szels bætti við öðru á 29. mínútu. ÍR minnkaði muninn á 29. mínútu og jafnaði á 70. mínútu.
Vendipunktur leiksins var þegar Viktoria, sem er fyrirliði Einherja, fékk sitt annað gula spjald og þar með það rauða á 83. mínútu. ÍR komst yfir á 86. mínútu og skoraði fjórða marki á fyrstu mínútu uppbótartíma.
Einherji er núna í 6. sæti með 30 stig eftir 17 leiki og á þrjá eftir. ÍR hefur náð nokkurri forustu í deildinni með 39 stig en hefur leikið 18 leiki. Á eftir koma ÍA, Haukar, Völsungur, Fjölnir og ÍH með 29-32 stig sem þýðir að Einherji á enn möguleika í toppbaráttunni.
Marteinn Már jafnar fyrir KFA. Mynd: Jón Guðmundsson