Knattspyrna: KFA byrjaði á stórsigri

Knattspyrnufélag Austfjarða burstaði Fjallabyggð 6-1 í fyrstu umferð annarrar deildar karla í knattspyrnu um helgina. Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir er kominn í 16 liða úrslit bikarkeppni kvenna.

Stórsigurinn var ekki í augsýn í hálfleik þótt KFA hefði byrjað með marki Vice Kendes strax á 11. mínútu. Fjallabyggð jafnaði á 32. mínútu en þremur mínútum síðar var KFA komið í 2-1 með marki Zvonomir Blaic.

Marteinn Már Sverrisson skoraði þriðja markið á 63. mínútu og Esteban Selpa það fjórða á 68. mínútu, rétt áður en honum var skipt út af. Marteinn Már skoraði sitt annað mark á 77. mínútu og loks var það Danilo Milenkovic í uppbótartíma.

Höttur/Huginn tapaði 1-0 fyrir Völsungi á Húsavík á föstudag. Markið var skorað eftir um klukkutíma leik.

Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir hefndi fyrir það á sunnudag með að slá Völsung úr leik í bikarkeppni á sunnudag. Sofia Lewis skoraði á 27. mínútu og Natalie Cooke á 34. mínútu. Dregið var í 16 liða úrslitunum í gær. FHL tekur á móti úrvalsdeildarliði FH um hvítasunnuhelgina.

Um næstu helgi fer liðið suður til Grindavíkur og þar í Lengjudeild kvenna. Í annarri deild kvenna mætir Einherji KH. Höttur/Huginn fær Víking Ólafsvík í heimsókn en KFA spilar gegn Þrótti Vogum. Spyrnir mætir til leiks í fimmtu deildinni á sunnudag og heimsækir KM.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar